Ástralía, þriðji hluti, Brisbane
- gardarorn4
- Feb 27, 2023
- 5 min read
Brisbane, Queensland, hvað skal segja um þessa borg? Hún er sögð þriðja stærsta borgin í landinu, á eftir Sydney og Melbourne. Fólk er sagt mjög svo laid back i Queensland. Borgin var allt öðruvísi en ég hafði einhvern veginn gert mér í hugalund. Það var meira af háum byggingum og svo var hún ofboðslega falleg meðfram ánni og á Suðurbakkanum. Annars fannst mér ekkert svakalega mikið til borgarinnar koma, svona þannig. Alls ekki ljót og leiðinleg, en kannski ein sú minnst spennandi sem ég hef heimsótt. Það reyndar setti talsverðan strik í reikninginn að ég veiktist þarna á þriðja degi og lá eiginlega alveg bakk þriðjudag og miðvikudag og fram á fimmtudag, þannig að ég náði alls ekki að gera allt sem mig langaði. En ég gerði margt engu að síður :)

Ég lenti seint að kvöldi eftir langt flug frá Perth, en innanlandsflug í Ástralíu eru auðvitað ansi löng oft á tíðum, vorum fjóra og hálfa klukkustund þarna á milli enda. Ljúft og gott flug með Virgin Australia, þannig að nú er ég búinn að prófa að fljúga með þremur helstu flugfélögum Ástrala, Virgin, Qantas og Jetstar, öll bara ljómandi góð. Ég var búinn að bóka mig á flott hótel, Hótel Indigo í miðborginni í sjö nætur. Allt gekk vel á flugvellinum fyrir utan bið eftir leigubíl, það tók talsverðan tíma vegna þess að stórstjarna var í borginni með tónleika frétti ég þarna í leigubílaröðinni, og yrði með tónleika alla helgina. En það var enginn annar en Ed Sheeran sjálfur sem var á Ástralíuferð sinni. En loks kom leigubíll og ég komst á hótelið. Fór síðan aðeins út á röltið þótt komið væri framyfir miðnætti, bara til að skoða það nærumhverfið. Það var líka rosalega mikið fiðrildaþema á hótelinu, veggir skreyttir fiðrildamyndum og lyftuhurðirnar líka, svoldið skemmtilegt.
Daginn eftir fór ég svo á röltið um borgina. Rölti þarna um miðbæinn og svo meðfram ánni, sem er ótrúlega skemmtilegt svæði. Fór niður að Suðurbakkanum, sem er svona þeirra kúltúral svæði með leikhúsum og listasöfnum sem og parísarhjóli, og ég er sucker fyrir svoleiðis þannig að ég skellti mér í nokkra hringi.
Þarna á laugardagskvöldinu var ég síðan búinn að bóka mér leikhúsmiða, fyrst þriggja rétta dinner á veitingahúsinu í leikhúsinu og svo á söngleikinn Hamilton, sem fjallar mikið um sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjana þarna í kringum 1780. Þetta var heljarinar söngleikur með mörgum persónum en aðalpersónan hét Alexander Hamilton, barátta hans við kerfið og fleira. Þetta er víst þekktur söngleikur en mér finnst ég ekki þekkja til hans. En þetta var vissulega hin mesta skemmtun. Ótrúlega gaman að fara í leikhús í útlöndum, og sérstaklega er ég búinn að vera duglegur að fara á hinar ýmsu gerðir leikrita.
En eins og ég sagði hér áðan komst ég að því að Ed Sheeran væri í borginni með tónleika. Þannig að ég fór að skoða hvort það væru lausir miðar, og viti menn, það voru örfáir lausir miðar á sunnudagstónleikana, þannig að auðvitað skellti ég mér á miða, enda á hann fjöldan allan af góðum lögum. Tónleikarnir voru allir hinir glæsilegustu, haldnir á stórum íþróttaleikvangi og voru um 60 þúsund manns mættir til að bera hann augum, og var sett aðsóknarmet þessa helgina, 60 þúsund manns þrjú kvöld í röð. Ég skemmti mér konunglega þótt ég væri bara einn þarna lengst upp í stúku. Set hér inn nokkrar myndir og örfá myndbönd til að sýna ykkur stemninguna.
Kíkti síðan aðeins út á lífið sem var nú bara nokkuð hressilegt, þrátt fyrir sunnudagskvöld :)
Eins og ég sagði svo frá í upphafi hljóp í mig einhver helvítis pest þarna seinnipart mánudagsins og ég bara meira og minna lá fyrir í rúminu frá á fimmtudagskvöld. Dröslaðist út í búð til að ná mér í að borða en svo bara inn aftur, var allur orkulaus, svitnaði, var með magavesen og bara svona almenn leiðindi! Spurning hvort ég hafi ekki bara verið orðinn bensínlaus eftir allt flakkið. Fór nú samt út að borða á fimmtudagskvöldinu og gat nú gert eitthvað skemmtilegt úr því, svona síðasta kvöldið mitt í Ástralíu. En klárlega þarf ég að koma aftur til Queensland, langaði að skoða bæði Gold Coast, Sunshine Coast og eins dýragarðinn sem er kenndur við Steve Irwin og er í klukkutímafjarlægð frá Brisbane, allt hlutir sem ég hafði ætlað að gera.

Eftir hádegið á föstudag flaug ég nú svo loks til Nýja Sjálands, búinn að hlakka gríðarlega til að koma hingað. Flaug til Christchurch á Suðureyjunni og lenti hér eftir miðnætti á föstudag. Tók bílaleigubíl og ætla að keyra um eyjarnar. Óheppnin heldur nú samt áfram að elta mig því miður. Ég fór að finna fyrir helvítis tannpínu þarna á föstudeginum á ferðalaginu, en vonaði að það yrði ekki mikið úr því. Á laugardag vaknaði ég svo alveg að drepast og reyndi að komast að hjá tannlækni en fékk ekki tíma fyrr en á mánudeginum. Eftir síðan svefnlausa nótt og gríðarlega verki sem varla létu undan verkjalyfjum fór ég á tannlæknastofu eldsnemma á sunnudagsmorgni sem sagt var að ætti að vera opin, en af óútskýrðum ástæðum var hún lokuð um helgina og vísað á bráðamóttökuna. Ég fór því á svona sólahrings læknavakt þarna á sunnudagsmorgninum, beið þar í á þriðju klukkustund og fékk viðtal við lækni og hjúkrunarfræðing. Var settur á sýklalyf og Kódein verkjalyf. Átti síðan hræðilegan sunnudag með ógeðslega verki og aðra mjög svefnlitla nótt. Hitti svo tannlækni klukkan 10 í morgun sem tók röntgenmynd og ég er kominn með sýkingu í tönn sem var gert við fyrir nokkrum árum, sýking á bakvið viðgerðina sem er að drepa taugina þarna í kring, og það skýrir þennan ógeðslega verk. Það eru í raun bara þrír möguleikar í boði, halda áfram á sýklalyfjum og taka sterkari verkjalyf og hitta svo tannlækni síðar þegar ég kem heim, og þá eru möguleikarnir að rótarfylla tönnina eða hreinlega taka hana. Tannlæknirinn vildi ekki fara að taka hana núna því sýklalyfin ættu að byrja að virka og þá ætti ég að geta haldið ferðalaginu áfram. Eins gat hún ekki rótarfyllt hana, þar sem það tekur nokkrar heimsóknir og ég fer úr þessari borg á miðvikudag. Þannig að ég fór aftur upp á hótel með meira af sýklalyfjum í poka og sterkari verkjalyf og vona að þetta fari nú að lagast eitthvað.
Þetta hefur auðvitað sett það strik í reikninginn að ég hef ekkert treyst mér til að keyra um í kringum Christchurch, heldur meira og minna haldið mig innandyra, varla getað hugsað hálfa hugsun eða verið með sjálfum mér af verkjum. Er nú samt aðeins búinn að skoða borgina, en það kemur meira um það í sér bloggi. Vonum bara að fall sé fararheill :)

Annars bara hafið það öll sem best og takk enn og aftur fyrir lesturinn og allar góðu kveðjurnar, þær ilja!
Comentarios