Ástralía, annar hluti, Perth og nágrenni
- gardarorn4
- Feb 17, 2023
- 4 min read
Loksins kom ég til Perth, alveg á Vesturströnd Ástralíu. Þeir tala mikið um hversu langt sé í næstu stórborg og að borgin sé nær Asíu heldur en öðrum stórum borgum í Ástralíu, og þeir eru mjög stoltir af borginni sinni, og þeir mega alveg vera það, hér er stórkostlegt að vera. Borgin er þægilega stór, almenningssamgöngur til fyrirmyndar, allir mjög kurteisir og almennt allt frekar svona þægilegt. Ég er bara búinn að vera í borginni í fjóra daga og hefði vel getað verið lengur, því margt er að sjá. Ég nýtti samt tímann mjög vel og náði að gera ótrúlega mikið.

Fyrsti dagurinn fór í það að skoða nærumhverfið frá hótelinu, en ég var mjög vel staðsettur, stutt í allar áttir. Það var svakalega heitt þegar ég lenti um kvöldmat í Perth, 35 gráðu hiti, en sem betur fer kólnaði eftir því sem leið á kvöldið og næstu daga á eftir var svona 25-28 stiga hiti, alveg fullkomið. Ég rölti þarna um í kringum hótelið og fór svo niður á Elizabeth Quay, sem er svona þeirra bryggjusvæði þar sem er ótrúlega fallegt að horfa yfir borgina og út á hafið, geggjað sólsetur og víða hægt að setjast niður, borða og drekka og njóta mannlífsins.
Daginn eftir nýtti ég svo svakalega vel. Ég byrjaði á því að fara í Hop on/off túr um borgina og náði að sjá það allra markverðasta á þeim tveimur klukkutímum sem ferðin tók. Ég tók nú samt ekki neitt mjög mikið af myndum í þeirri ferð, en nokkrar fallegar byggingar og útsýnið yfir borgina frá The Kings Gardens var stórkostlegt.
Eftir rútuferðina var komið að siglingu. Perth liggur við á sem kallast Swan River og endar hún síðan út í sjó við bæ sem kallast Fremantle. Á milli Perth og Fremantle er hægt að fara í ótrúlega skemmtilega siglingu þar sem sagt er frá borginni og maður sér borgina og úthverfin frá ánni sem var alveg ótrúlega gaman og ég mjög heppinn að komast með í þessa siglingu, því þegar ég kom að var báturinn alveg við það að fara en þeir leyfðu mér að hoppa um borð!
Eftir langan og góðan dag skellti ég mér svo í leikhús um kvöldið. Um þessar mundir eru nokkurs konar Festival dagar í Perth og af því tilefni er alls konar í gangi. Ég ákvað því að kanna hvað ég gæti gert og var laust á leiksýningu í Hinu Konunglega leikhúsi í Perth á sýningu byggð á sögunni um Dr Jekyll and Mr Hyde, sem margir lásu í menntaskóla. Þetta var mjög áhugaverð sýning því hún var svo skemmtilega upp sett. Það voru bara tveir leikarar sem léku hlutverkin, voru á sviðinu ásamt kvikmyndatökuliði og var samtölum þeirra varpað í svarthvítu á skjái sem svifu yfir sviðinu, þannig að maður var bæði að horfa á skjá og oft á leikarana sjálfa, sem voru þó stundum í felum bakvið veggi. Eins var mikið verið að breyta til á sviðinu leikmyndinni sjálfri og margt fólk í því. Þetta var líka mjög dramatískt verk, tveir klukkutímar af stöðugu tali og drama. Var ótrúlega gaman að prófa þetta. Mátti auðvitað ekki taka neinar myndir á sýningunni en tók aðeins myndir fyrir utan leikhúsið og í salnum.
Næsti dagur fór síðan í það að heimsækja nágrannabæinn Fremantle, en það var mikið mælt með að fara þangað og rölta þar um. Sérstaklega var samt talað um að gaman væri að heimsækja fangelsið sem var byrjað að nota á öldum áður þegar Ástralía var notuð sem fanganýlenda fyrir Bretland. Margir fangar voru fluttir í þetta fangelsi í kringum 1850 og var fangelsið síðan í stöðugri notkun fram til 1991, þegar því var lokað. Það var síðan sett á heimsmynjaskrá UNESCO og þess vegna er ótrúlega gaman að koma þangað. Ég fór í túr um fangelsið, fékk að sjá aðstöðuna, hvar fangarnir voru teknir af lífi á meðan það var við líði, mismunandi klefa og fleira. Þess má geta að mikið var lagt upp úr hreinlæti, vegna þess að einn veikur fangi gerði alla hina veika, og það gerði allt mikið erfiðara. Svoldið öfug hugsun miðað við hvernig lífið var í fangabúðum víða um heim, enda var þetta fangelsi, ekki fangabúðir. Hins vegar var fólk fangelsað fyrir minnstu glæpi, ölvun á almannafæri, öskur og fleira, þá fékk fólk að dúsa í 3-6 mánuði í fangelsinu!
Síðan eru hér nokkrar myndir af bænum sjálfum, en hann var ótrúlega skemmtilegur, lítill og þægilegur, fallegar byggingar en mikið mannlíf, og pottþétt vel hægt að vera þarna í lengri tíma. Eins er hann stutt frá Perth, innan við 30 mín með lestinni, mjög þægilegt!
Síðasta heila daginn notaði ég svo til þess að fara í eyjaferð. Það er eyja hér rétt fyrir utan Perth sem nefnist Rottnest Island og er algjör náttúruparadís, með frábærum ströndum og fallegu umhverfi. Eins eru þar saltvötn innan eyjarinnar. Þarna búa örfáir en þetta er gríðarlega vinsælt að fara þarna um helgar fyrir Perth búa, enda stutt að fara. Bannað er að koma á eigin bíl þangað þannig að það er lítil umferð, en nánast allir sem koma á eyjuna leigja sér hjól og hjóla um allt. Það sem eyjan er líka þekkt fyrir er þetta litla dýr sem er sirka eins og köttur á stærð, nokkurs konar pokarotta og nefnist Quokka. Ótrúlega gæf dýr og eru sögð heimsins glöðustu dýr því þau eru athyglissjúk og alltaf eins og brosandi á myndum. Ég auðvitað skellti mér í hjólaferð um eyjuna og náði að sjá nokkur af þessum dýrum. Hér er smá umfjöllun um þau, en þau eru bara til hér í Vestur Ástralíu og helst á eyjum úti. https://en.wikipedia.org/wiki/Quokka Sjáið svo litiina á sjónum, sjúkt!!!
En allt gott tekur enda og nú er bara hálftími í að ég yfirgefi Perth og fljúgi yfir til Brisbane, sem verður skemmtilegt líka, ætla að gefa mér viku þar, rata eflaust í einhver ævintýrin þar. See ya all later!


Geggjað Garðar, þú ert ekkert smá duglegur að fara í ferðir og kynna þér allt sem þessir staðir bjóða upp á. Og til lukku með flotta tattúið!