top of page

Afríkureisa í maímánuði

  • gardarorn4
  • Jun 14, 2023
  • 8 min read

Já, ég veit vel upp á mig skömmina, var ekkert duglegur að blogga á meðan ég fór í Afríkuferðina. Helsta ástæðan var sú að ekki var mjög gott netsamband víðast hvar og síðan þegar ég komst í betra samband var ég ekki í bloggstuðinu. En margir hafa haft samband við mig og viljað sjá myndir og sjá fréttir frá Afríku og því verður þetta langt blogg þar sem ég ætla að setja þetta saman í eitt blogg.


Ég byrja á bloggi um Egyptaland, þá fáið þið blogg um Eþíópíu, síðan er komið að Namibíu og að lokum Suður Afríka. Eins stoppaði ég aðeins í Qatar og set það með í bloggið.


Egyptaland

Loksins, loksins! Næsta land, Egyptaland. Að koma þangað og sjá pýramída hefur verið langþráður draumur sem loks rættist. Ég flaug frá Casablanca til Cairo með EgyptAir. Fjandans flugið var á seinkun um rúma fjóra klukkutíma en loksins héldum við af stað og tók flugið tæpar fimm klukkustundir, þannig að þetta var bæði langur og leiðinlegur dagur! Ég var ekki kominn á hótelið fyrr en um klukkan tvö um nóttina en bílstjórinn minn beið mín á vellinum og gekk það allt saman vel! Umferðin í Cairo, meira að segja að nóttu til var ansi klikkuð, bílar um allt og allir á flautunni!


Daginn eftir reif ég mig upp eftir fimm tíma svefn því það var komið að því að skoða pýramídana miklu. Leiðsögumaðurinn (konan) hitti mig í móttökunni og við vorum með bílstjóra sem keyrði okkur þangað sem við þurftum. Byrjuðum á því að keyra til Giza til að sjá þetta undur veraldar sem pýramídarnir eru. Hún fræddi mig um sögu þeirra og tilgang og fórum við þar á milli þessara þriggja stærstu sem eru á svæðinu. Ég hafði ekki tök á að fara inn þar sem röðin í það náði leiðinlega langt, en naut þess að sjá þá að utan. Heldur betur stórkostlegt að koma þarna og sjá þetta loksins með eigin augum. Varð sko ekki fyrir vonbrigðum með þessa sýn.

Næst fórum við á Egypska safnið, risastórt safn með styttum og ýmsum fornmunum, eins voru þar alvöru múmíur sem var gaman að sjá.

Hótelið mitt var frábærlega staðsett, alveg við Nílarfljótið. Ég hafði samt ekki mikinn tíma í að skoða borgina, enda stoppaði ég þar allt of stutt, en klárlega bæði borg og land sem mig langar að skoða betur.

Nú var komið að næsta landi, en mín beið næturflug til Addis Ababa í Eþíópíu


Eþíópía

Þetta er land sem mig hefur lengi langað til en verið frekar smeikur við að heimsækja. Það er kannski ekki af ástæðulausu, landið er alls ekki talið öruggt fyrir ferðamenn og fólki ráðlagt að vera með vopnaða verði með sér í dagsferðum um landið! Ég hélt mig því aðeins við höfuðborgina, Addis Ababa, sem kom heldur betur á óvart, mikil fátækt og húsin ansi hrörleg. Ég var sennilega eini hvíti maðurinn á svæðinu og það var mikið kallað á eftir mér, verið að reyna að fá mig inn á heimili sín fyrir dóp og eitthvað meira. Þetta var frekar erfitt að vera þarna, mér fannst ég ekki öruggur og vildi sem minnst vera einn á ferli. Ég fór samt í eina dagsferð um borgina og fékk mjög góða leiðsögn um bæði söfn, skólakerfið og smökkuðum við ekta eþíópskan mat sem var sjúklega góður, fórum síðan á markað, sem var magnað sjónarspil. EN myndir segja meira en mörg orð. Ég var líka frekar óheppinn með veður, gerði miklar rigningar og urðu mikil flóð í kjölfarið.

Já, Eþíópía var ævintýri, heldur betur, en ég mæli ekki með að fara þangað nema þá í mjög skipulagðri ferð með miklu öryggi. En eftir að hafa kynnt mér þetta land í Austur Afríku var kominn tími til að halda sunnar í álfuna, næsta land, Namibia.


Namibía

Stórkostlegt land sem ég vissi mjög lítið um áður en ég kom þangað en lærði mikið um bæði land og þjóð á meðan ég stoppaði í 5 daga í höfuðborg landsins, Windhoek. Saga landsins er fjölskrúðug og mörkuð blóði og baráttu, en í dag er landið eitt það friðsælasta í Afríku, svartir og hvítir lifa saman í sátt og samlyndi, og ríkir jafnt sem fáttækir, en því miður er ennþá mikil fáttækt. Landið er hið eina í Afríku þar sem þýska er eitt af móðurmáli, en þjóðverjar komu inn í landið í upphafi 20.aldarinnar og ætluðu sér stóra hluti, útrýmdu stórum hópum af innfæddum, reistu höfuðborgina, byggðu kirkjur og fleira. Þeirra valdatími var þó frekar stuttur og létu þeir í minni pokann fyrir Hollendingum, sem þá voru ráðandi í Suður Afríku og var landið innlimað inn í Suður Afríku í kjölfarið, þar til þeir hlutu eigið sjálfstæði 1991. Þannig að aðeins er um að ræða rúmlega 30 ára gamalt land, en Suður Afríka vildu eiga landið áfram en Namibíumenn vildu sjálfstæði, börðust ötullega fyrir því, og hlutu það að lokum. Margt er þó líkt með löndunum tveimur eins og gefur að skilja, matur, menning og blanda fólksins, mikil fjölmenning. Landið er einnig gríðarstórt, mikið landflæmi en fáir íbúar, og því ekki eins kaótískt og margar borgir í Afríku. Landið er mikið til eyðimörk, Kalahari eyðimörkin til austurs, en á sama tíma gríðarlegt dýralíf, sem ég fékk aðeins að kynnast.

Fyrstu myndirnar eru frá höfuðborginni, Windhoek en þar fór ég með leiðsögumanni um borgina, inn í hverfi heimamanna, á markað og fleira.

Síðan fór ég í litla safarí ferð rétt utan við höfuðborgina. Það var nú ansi snúið að keyra þangað á venjulegum fólksbíl, þurfti að fara yfir tvær óbrúaðar ár, önnur var allt of djúp en ég fattaði svona detour til að komast nánast framhjá henni, annars væri ég sennilega ennþá þarna í ánni. Vegurinn var bara eyðimerkur moldar vegur, á köflum stórgrýttur, en ég komst að lokum og fór í skemmtilega tveggja tíma ferð. Það er aldrei vitað hvaða dýr fólk nær að sjá en við vorum bærilega heppin, sáum mikið af gíröffum, margar tegundir af antilópum, flóðhesta, ýmsar fuglategundir og minni dýr eins og héra og kanínur. Ótrúlega skemmtilegt!

Stórkostlegt land sem kom mér sjúklega mikið á óvart og ég mæli svo sannarlega með heimsókn þangað, bara stoppa stutt í Windhoek, taka bílaleigubíl (jeppa) og keyra landið þvert og endilangt og skella sér í þjóðgarðana í Safaríferðir :) En næst lá leið mín til nágrannalandsins í suðri, Suður Afríka.


Suður Afríka

Það er nú varla hægt að heimsækja Afríku án þess að koma við í Suður Afríku, því stóra og magnaða landi. MIg hefur dreymt um að koma til Cape Town í mjög langan tíma, og núna var komið að því. Og vá, þvílík borg! Hún er alveg gríðarlega falleg, landslagið magnað, fjöllin, Atlantshafið, menningin, og já, auðvitað dýralífið! Borgin er stútfull af veitingastöðum og verslunum, mannlífið er fjölbreytt, mikil fáttækt og mikið ríkidæmi, og oft bara vegur í gegn sem skildi af hverfi ríkra og fátækra. Því var mér ráðlagt að vera ekki einn á ferli eftir myrkur en ég upplifði mig aldrei í neinni hættu þarna í borginni. Sagan er auðvitað stórmögnuð, Aparteit tíminn hræðilegur, nýlendutíminn líka. Ég byrjaði á því að fara í ferð um skagann sem borgin situr á, Cape Peninsula. Þar keyrðum við í gegnum magnaða náttúrufegurð, fórum að Góðravonarhöfða (Cape of Good Hope), fórum að Suð-vestasta punkti landsins, Cape Horn, og svo það sem stóð upp úr, kíktum á geggjaðar mörgæsir sem búa þarna allt árið um kring. Nokkrir Bavíanar dönsuðu svo um göturnar fyrir okkur, en þeir eru víst mjög skæðir og reyna að komast inn í bíla hjá fólki og hrifsa mat af fólki, mér fannst þeir samt svo krúttlegir. Túrinn endaði svo í litríkasta hverfi borgarinnar, Bo-Kaap.

Planið í túrnum hafði verið að fara upp á Borðfjall (Table Mountain), sem er auðvitað þekktasta kennileiti borgarinnar, en sökum hvassviðris var ekki hægt að fara þangað upp og ekki heldur daginn eftir þar sem þá var ennþá hvassara, enda veturinn að nálgast þarna í suðri. En loksins kom góður dagur og ég komst upp á fjallið, sem var auðvitað bara stórkostlegt. Hélt svo áfram að skoða borgina og nærsveitir, keypti mér tveggja daga miða í svona Hop on Off rútu og þvældist um, meðal annars í vínsmökkun. Fór svo eitt kvöld í svona ekta Afrískt skemmtikvöld, með mat, söng, andlitsmálningu og fjöri, mjög gaman.

Eitt af því sem mér tókst ekki að gera en langaði var að fara út í Robben Eyju, en þar er fangelsið staðsett sem Nelson Madela sat í í fjöldamörg ár. Vegna veðurs var bátunum alltaf aflýst. En þá á ég allavega eitthvað eftir þegar ég kem þangað aftur. Eins hefði ég viljað ferðast meira um landið, en það bíður betri tíma. En stórkostlegir dagar í Höfðaborg.

Planið mitt í upphafi var að fara frá Suður Afríku og til Rwanda, en veðurguðirnir voru mér ekki hliðhollir í þetta skiptið, miklar rigningar og mannskæð flóð skuku Rwanda stuttu áður en ég átti að fara þangað og innviðir því mjög laskaðir eftir það. Mikil synd því þar ætlaði ég í alvöru Safaríferð, sjá ljón og fíla og fleiri dýr, en því miður varð ekkert úr því. Ég fór því að skoða möguleika mína á að komast yfir til Evrópu aftur, hagstæðasti flugmiðinn reyndist vera tengiflug í gegnum Doha í Qatar! Ok, ég var auðvitað alveg til í það, þar sem Katar var eitt af þeim löndum sem ég átti eftir að heimsækja, og því tilvalið að stoppa þar nokkra daga á leið minni til Evrópu! Ekki skemmdi fyrir að fá að fljúga með besta flugfélagi í heimi, Qatar Airways, og því ákvað ég að eyða ennþá meiri pening og fljúga í þessum frægu Qsuites, sem eru svítur á viðskiptafarrými, voru ljómandi góðir 10 klukkutímar!


Katar

Þegar ég kom til Katar mætti mín sól og sumar, hitinn nálægt 40 gráðum og vart hægt að vera utandyra yfir daginn. Dagarnir voru því nýttir í að þræða verslunarmiðstöðvar og slaka á á hótelinu. Ég var síðan búinn að bóka mér einn túr um borgina þar sem bílstjóri keyrði mig á milli merkustu staða borgarinnar sem var mjög skemmtilegt. Við fórum meðal annars á tvö söfn þar sem meðal annars íslendingur var með sýningu, fórum í verslunarhverfið (Souq Wagif), keyrðum um nýjasta hverfi borgarinnar sem var gamalt hverfi sem hafði verið gert upp vegna FIFA, keyrðum um dýrasta hverfi borgarinnar sem nefnist The Pearl Island og fleira, var virkilega skemmtilegt síðdegi.

Katar, eins og nágrannar þeirra í suðri, Dubai, Abu Dhabi og Bahrein er svona "tilbúin" borg að miklu leiti, ekki hægt að segja að það sé mikið "unique" eða arabískt við landið, enda aðeins 15% landsmanna frá Katar, aðrir íbúar eru innflytjendur, mikið til frá Indlandi og Pakistan. Hins vegar eru strangar íslamskar reglur í landinu sem fólk fer eftir. Mér þótti gaman að koma þarna, enda líður mér alltaf vel í Mið-Austurlöndum af einhverjum ástæðum, en hitinn var eiginlega kæfandi! Því var það kærkomið að lenda í hálfgerðum sudda og 10 gráðum í Brussel!


Belgía

Ég tók nokkra daga í Belgíu, gisti í litlum bæ utan við Brussel sem heitir Mechelen en skrapp í dagsferðir til bæði Antwerpen og Brugges, ofboðslega fallegar borgir báðar tvær, og Mechelen reyndar líka. Ég hef bara komið til Brussel en ekkert skoðað Belgíu áður og því voru þetta skemmtilegir dagar.

Síðustu daga hef ég svo verið í íbúð foreldra minna á Spáni og bæði hvílt lúin bein og hlaðið batterín fyrir næstu reisu, sem hefst á morgun. Guðrún vinkona var líka hérna í nokkra daga með Díönu vinkonu okkar og börnunum hennar og áttum við góða og skemmtilega daga saman. Á morgun fer ég svo til Bologna á Ítalíu en þar eru staddir Kalli og Andrés vinir mínir ásamt Hinsegin kórnum á stóru kóramóti sem þar fer fram, og vill svo skemmtilega til að í kórnum eru einnig Sandra og Selma vinkonur mínar, þannig að ég mun hitta fullt af skemmtilegu fólki. Við strákarnir ætlum svo að skella okkur á gríska eyju í framhaldinu og síðan verða einhver Evrópuævintýri hjá mér á eftir, en nánar um það síðar.


Þetta blogg er orðið allt of langt og ég efast um að fólk nenni að lesa það stafana á milli, en ef þú hefur nennt að lesa, takk fyrir það :) Bestu kveðjur heim!






 
 
 

Comments


bottom of page