top of page

Aotearoa (Nýja Sjáland), Te Ika-a-Máui (Norðureyjan)

  • gardarorn4
  • Mar 16, 2023
  • 7 min read

Þá er komið að síðustu umfjöllun minni í bili um Nýja Sjáland. Eins og ég sagði frá í síðasta bloggi þá fóru hlutirnir ekki alveg eftir plani, en ég bjó bara til nýtt plan og er búinn að njóta síðustu sex daga til hins ítrasta í þessu stórkostlega landi sem Nýja Sjáland, eða á Mári tungu, Aotearoa er.

Norðureyjan er allt öðruvísi heldur en Suðureyjan. Hér eru fjöllin miklu minni, meira eins og hæðir og hólar, sem og eldfjöll eins og keilur. Það er mikill gróður, eyjan er mjög græn og falleg. Hér eru víða hverasvæði og mikill jarðhiti. Minna af kindum, en meira af beljum svona sýndist mér :) Hér eru líka stóru borgirnar, allt fólkið, eða tveir þriðju allra íbúa og mismunandi menningaheimar sem mætast hér um allt, sérstaklega í Auckland, stærstu borg landsins.

Auckland kom mér skemmtilega á óvart. Hún var stærri en ég bjóst við og meira við að vera en ég hafði gert mér í hugalund. Ég var þó mest í kringum miðbæinn og höfnina, sötraði hvítvín, borðaði góðan mat, rölti í búðir, kíkti í Casino, aðeins á djammið og naut mannlífsins. Falleg borg og gaman að eyða smá tíma þar. Ég var tiltölulega heppinn með veður líka sem gerir allt betra.

Auðvitað gerði ég eitthvað menningalegt eins og ég reyni að gera á flestum stöðum. Ég hafði komist að því að Backstreet Boys væru með tónleika í Sparks Arena í Auckland á laugardagskvöldinu og fannst mér alveg tilvalið að skella mér á þá tónleika. Daginn eftir komu svo fréttir heima að þeir væru á leið til Íslands, en hey, ég er ekki þar, þannig að ég fer bara á þá hér. Ég var aldrei mikill aðdándi, þótt þeir eigi mörg góð lög, en hún Alda vinkona sem lést síðasta sumar var aðdáandi númer eitt og því fannst mér eitthvað fallegt og gott við það að fara á þessa tónleika og veit ég að hún var með mér í anda. Tónleikarnir voru stórgóðir, þrátt fyrir að þetta sé ekki lengur "Boyband" heldur karlar komnir langt á fimmtugsaldurinn þá geta þeir gert flott show og ég skemmti mér stórvel. Set inn nokkur myndbönd hér að neðan.





Ég fór í að skoða hvort ég gæti farið í dagsferðir út frá Auckland til að geta séð meira af landinu, en dagsferðir hingað og þangað voru alveg viðbjóðslega dýrar og byrjuðu yfirleitt klukkan sex á morgnana, og þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki mjög hress svo snemma morguns..... fór síðan að skoða bílaleigur og fann eina local leigu þar sem ég gat fengið bíl á sirka 40 þúsund með öllum tryggingum í tvo sólahringa þannig að ég ákvað bara að skella mér á það. Það var nú meira gæfusporið sem ég tók þar því ég fékk að sjá heldur betur margt geggjað síðustu tvo dagana í landinu.

Á mánudeginum byrjaði ég á að keyra til Rotoura en sá bær er hvað mest þekktastur fyrir að vera með mikið af fallegum hverasvæðum og hins vegar fullur af Mauri menningu. Ég byrjaði á því að rölta um almenningsgarðinn þeirra, hann er beint í miðborginni og samanstendur af heitum hverum, heitum stöðuvötnum og gróðri, mjög flott, og svo gaman að finna brennisteinslyktina aftur, fannst ég bara kominn til Íslands.

Eftir þennan garð fór ég á svæði sem heitir Te Puia, en það er frægt fyrir tvennt, annars vegar að vera með hver sem er sá stærsti á öllu Suðurhveli jarðar, ásamt fleiri minni hverum og jarðhitasvæðum, og hins vegar er það miðstöð Mauri menningar í landinu. Þar er til dæmis sérstakur skóli þar sem Mauri fólk kemur og lærir eitt af þrennu, búa til skartgripi og hluti úr grjóti eða efni úr jörðinni, númer tvö að búa til Mauri tréverk úr timbri, og númer þrjú að búa til Mauri hluti úr vefnaði. Þessir einstaklingar útskrifast síðan með gráðu í þessu og mega kenna áfram víðs vegar um landið. Þetta er gert til að stuðla að því að Mauri menning haldi sér um ókomna tíð. Þessi skóli er styrktur af ríkinu og fólk fær greitt fyrir að nema þar. Eins er þarna mikill lærdómur um Mauri menninguna. Ég fór þarna í tveggja tíma túr þar sem við byrjuðum á jarðhitasvæðinu, hverinn setti hið flottasta show á svið fyrir okkur, en hann gýs sirka 20 sinnum á sólahring, ég var mjög hissa hvað það stóð lengi. Síðan fengum við að skoða skólann og fræðast um Mauri menninguna, var alveg sérstaklega skemmtileg ferð og leiðsögumennirnir, tveir ungir strákar voru frábærir, brustu í söng inn á milli, stórskemmtilegt. Fengum líka að sjá Kiwi fugla, en þarna er rekið verndunarbúðir fyrir Kiwi fuglinn, sem er í mikilli útrýmingahættu um allt landið, og þeir reyna að fjölga þeim þarna, mjög skemmtilegt að sjá loksins þennan fræga fugl. Ég er ekki með neina mynd af því samt því myndatökur voru bannaðar þar inni. Set inn nokkrar myndir og í lokin er myndband þar sem Mauri hópur er með söng/dansatriði, kom inn í það mitt og stóð bara í dyrunum þannig að ég sá það ekki alveg nógu vel, en skemmtilegt það sem ég sá og heyrði.


Eftir þetta fór ég svo áfram í borg sem heitir Tauranga, en ég hef lengi heyrt um þessa borg þar sem hún Guðrún vinkona fór þangað þegar hún var að mig minnir 16 ára og var í nokkrar vikur, og hefur oft talað um ferð sína þangað. Ég var því mjög spenntur að koma þangað. Sú borg hefur verið að vaxa og dafna á síðustu árum og er í dag fimmta stærsta borgin í landinu og þykir orðin mjög hipp og kúl. Þar úti á tanganum stendur frægt eldfjall sem heitir Mount Monganui sem var mjög gaman að sjá. Eins eru þeir með einstaklega fallegar strendur. Bærinn sjálfur var líka lítill og krúttulegur og ég fékk bestu Peking Önd sem ég hef smakkað þar, sjúklega góð. Ég lenti líka í ógeðslega mikilli rigningu þar og varð rennandi blautur því þetta var svona klassísk íslensk rigning sem fer í allar áttir og hvergi hægt að komast almennilega í skjól, en þetta var bara ljómandi hressandi ;) Svo stytti bara upp og regnboginn kom í ljós. Eftir þetta ævintýri tók svo við þriggja tíma keyrsla til baka á hótelið.

Eftir frábæran mánudag var komið að ennþá frábæri þriðjudegi. Veðrið var sjúklega gott, yfir 20 stiga hiti og glampandi sól. Ég tékkaði mig út af hótelinu og dreif mig af stað, en daginn áður hafði mér tekist að fá pláss í fer um Hobbitaland, en Hobbitaland, eða Hobbiton eins og það heitir er þar sem öll hobbitaatriðin í Lord of The Rings og The Hobbit voru tekin upp og er svæðið í sameiginlegri einkaeigu leikstjórans Peter Jackson og fjölskyldunni sem rekur bóndabýlið á svæði, Alexander fjölskyldan. Þarna er stundað áfram mikil fjárrækt og kúabú, sem og reknir þessir vinsælu Hobbitatúrar, en þá er eingöngu hægt að fara í með leiðsögn og sérstakri rútu og er yfirleitt uppbókað marga daga fram í tímann þannig að ég var sjúklega heppinn að þau sáu aumur á mér og leyfðu mér að koma með. Þetta var í einu orði sagt STÓRKOSTLEGT!! Þetta var bara eins og í myndunum svona lítið þorp, öll húsin alvöru að utan, en allt sem fram fór inni í húsunum var tekið upp í stúdíó þannig að húsin eru öll tóm. Við fengum að heyra mikið af sögum, og sérstaklega hversu smámunasamur Peter Jackson var með alla hluti, en það vissulega skilaði sér í gæði myndanna. Honum þóttu til dæmis kindurnar á Nýja Sjálandi ekkert spennandi, þannig að hann lét flytja inn kindur frá USA..... og hann var að taka upp mynd á kindabúi.... Eins lét hann fólk ganga fram og til baka í grasinu að þvottasnúrum til að hengja upp þvottinn til þess að það liti betur út á myndavélinni að gengið hafði verið þarna aftur og aftur. Fullt af öðrum skemmtilegum sögum. Í lokin fengum við svo að smakka bjór bruggaðan á svæðinu, algjörlega frábært og stendur upp úr því sem ég er búinn að gera. Strákurinn sem leiðsagði okkur, Eric, var líka frábær og vissi mikið. Hann er frá Kanada og komið síðustu sumur til að leiðsegja hér en er núna í fyrsta skipti allt árið. Sveitin og umhverfið var líka stórkostlegt, grasið svo grænt og fallegt.

Eftir þessa dásemdar ferð fór ég svo á stað sem er kallaður The Blue Spring. Þetta var svona middle of nowhere en ég rampaði frekar óvart á þetta. Gekk þarna ótrúlega fallega leið meðfram ánni, en vatnið er sérstaklega tært sem gefur þvi þennan bláa og blágræna lit, sést ekkert of vel á myndunum en var alveg magnað. Gróðurinn ofan í ánni var líka sérstaklega fallega grænn. Umhverfið var líka alveg stórkostlegt, gaman að ganga þarna um og njóta.

Eftir þennan dýrðardag var svo kominn tími til að keyra áleiðis að flugvellinum en ég átti flug þarna seint um kvöldið. Á leiðinni stoppaði ég samt í þessum litla og sæta bæ sem heitir Tirau og tók þessar skemmtilegu myndir þar.

En já, eins og ég segi, allt gott tekur enda og kominn tími á næstu ævintýri. Ég flaug því frá Auckland seint á þriðjudagskvöldinu áleiðis til Californiu. Stoppaði aðeins á Hawaii á leið minni til Los Angeles þar sem ég er staddur núna. Flaug með Hawaiian Airlines á buisness class sem var mjög gott og gat ég aðeins náð að sofa, frábær þjónusta frá öllum um borð, myndarlegir og hressir flugþjónar og flugfreyjurnar allar voða sætar með blóm í hárinu. Flugið frá Hawaii til LA var hins vegar ansi hressilegt, mikil ókyrrð alla leiðina og sætisbeltaljósin spennt í 4 klukkustundir af þeim tæpu 5 sem tók að fljúga, og ógeðsleg lending í grenjandi rigningu. Ég hefði vel getað hugsað mér að stoppa lengur en nokkrar klukkustundir í Honolulu en það varð ekkert úr því núna, bara síðar. Tók samt nokkrar myndir úr flugvélinni :) Flugvöllurinn þar er samt hræðilegur í alla staði, eins og sovésk 70´s bygging og endalausar raðir.... Þar var líka 28 stiga hiti og 90% raki þannig að utandyra var nánast ólíft, en það hafði gengið þrumuveður þar yfir alla nóttina.

Þetta var nú einn skrýtnasti sólahringur sem ég hef upplifað þar sem ég fór yfir daglínu og fékk því annan þriðjudag 14.mars í kaupbæti. Fór í loftið að kvöldi 14.mars og lenti í Honolulu að morgni 14.mars, flaug svo þaðan og lenti í Los Angeles að kvöldi 14.mars, nokkurn veginn klukkan það sama og ég hafði farið í loftið frá Auckland, enda var ég orðinn illa ruglaður og svaf í 12 tíma í nótt.


Næstu tvær vikur verð ég semsagt í Bandaríkjunum og margt planað, sótti bílaleigubíl í dag og skrölti svo um í Hollywood í allan dag, en meira um það í næsta bloggi. Oft komið til USA en er að fara á nýja staði núna. Síðan eftir USA fer ég til Evrópu, til Spánar þar sem ég mun hitta fólkið mitt aftur. Takk fyrir lesturinn og kveðjurnar og hafið það öll sem allra best.



Comments


bottom of page