Bandaríkin, Arizona
- gardarorn4
- Apr 1, 2023
- 4 min read
Ég hef einu sinni komið til Arizona áður, það var að hausti til og þá voru 40 gráður í eyðimörkinni, og mér fannst geggjað að vera þar þá, en ég hafði ekki tök á að fara í Miklagljúfur í þeirri ferð, þannig að núna langaði mig mikið að komast þangað og fannst tilvalið að fara þangað fyrst ég var á bíl. Mikið sem það kom mér samt á óvart veðurfarið í Norður Arizona, þar var bara snjókoma og kalt, meira að segja við Miklagljúfur, hélt ekki að það myndi snjóa þarna, en það er víst mjög algengt á veturna. Ég hélt til í mjög skemmtilegri borg sem heitir Flagstaff, mæli mikið með þeim stað.

En byrjum á Miklagljúfri eða Grand Canyon. Vá vá vá, alveg geggjað. Ég keyrði fyrst einhverja leið frá Flagstaff sem tók tæpar tvær klukkustundir en þá kom ég austan megin inn í þjóðgarðinn. Var svo merkilegt að það var alveg snjólaust fljótlega eftir að ég keyrði frá Flagstaff og þegar ég kom að upphafi gljúfursins og á slóðir Navajo indíána, og ótrúlega fallegt landslagið. Síðan keyrði ég áfram inn í þjóðgarðinn sem Miklagljúfur tilheyrir og þá snjóaði bara vel á mig, og í garðinum sjálfum talsverður snjór svona í á toppnum. Það stytti samt upp og var ótrúlega fallegt veður, og þvílíkt náttúruundur sem þetta er, sjúklegt alveg! Mikið mikið stærra en ég hélt, og eflaust er gaman að vera þarna í nokkra daga, fara í göngur niður í gilið sjálft og fleira. Eins eru strætisvagnar sem ganga á milli stoppa þarna við þorpið sem er þarna, en já, sjón er sögu ríkari, skoðið myndirnar, en ég var dolfallinn.
Flagstaff var þar sem ég gisti og ég ákvað því að taka einn dag í að skoða miðborgina þar, rölta um í búðunum og skoða allar fallegu byggingarnar sem þar eru. Þetta er ótrúlega krúttulegur bær með sirka 145.000 íbúa og stendur hátt uppi, um 7000 fet sem er sirka 2100 metra yfir sjávarmáli. Það er talað um Flagstaff sem þá borg sem snjóar einna mest í á veturna, en á sumrin ein sú sólarmesta, ótrúlegar andstæður. Hún stendur við fjallgarð sem nefnist San Francisco fjallgarðurinn og eru óvirk eldfjöll, vinsælt skíðasvæði á veturna. Mjög skemmtilegt mannlífið og menningin þarna í borginni. Route 66 liggur meðal annars í gegnum borgina, og þeir gera talsvert mikið úr því. Það er mjög mikið veggjakrot víðs vegar um borgina sem er mjög flott og skemmtilegt að sjá, því það er vel gert.
Svo varð það Sedona, elsku Sedona. Kom þangað síðast og gjörsamlega kolféll fyrir þeim stað, vissi ekki alveg hvernig það yrði núna, en jú jú, það er ennþá jafn geðsjúkt!! Klettarnir sem eru þarna, það er líka bara einhver auka orka sem ég get eiginlega ekki líst almennilega. Mannlífið, veitingastaðirnir, kirkjurnar, bara þetta allt saman. Ef þið hafið ekki komið til Sedona, farið þangað, gefið ykkur góðan tíma og njótið. Leiðin á milli Flagstaff og Sedona var líka alveg mögnuð, hún hafði verið lokuð vegna skriðufalla síðustu daga en það var búið að opna þegar ég keyrði hana, alveg mögnuð, en ansi hreint kræklótt og ekki fyrir bílhrædda. Ég er líka bara svakalega hrifinn af þessu eyðimerkurdæmi, kaktusum og eitthvað, veit ekki hvers vegna eða hvað það er, en það er eitthvað!
Ég hef núna víða komið við í Bandaríkjunum, og vissulega bara fáar borgir í hverju ríki og svona, en ég held að uppáhalds ríkið mitt sé Arizona, það er eitthvað þar sem er heillandi á allan hátt, bæði hitinn og kuldinn sem og borgirnar og menningin, þótt reyndar Phoenix hafi ekki verið neitt spennandi þegar ég var þar á sínum tíma þá leið mér vel þar. Ég er samt svo mikill Evrópusinni og Ameríka á ennþá langt í land til að ná því, en kannski tekst það einn daginn, hver veit!!!
Á mánudeginum var svo kominn tími til að keyra aftur til Los Angeles. Ég stoppaði samt á leiðinni, fyrst í litlum bæ sem heitir Needles, fannst nafnið fyndið, en bærinn var mjög óspennandi, en endaði svo í Barstow þar sem ég gisti um nóttina þar sem þetta hefði annars verið of löng keyrsla í einu. Þegar ég fór svo að lesa mér til um Barsow þá er það víst mjög óspennandi borg og ein mesta glæpaborg Californiu..... En ég var aðeins út úr alveg við eitthvað Outlet mall sem var bara ljómandi skemmtilegt að skoða.
Á þriðjudeginum keyrði ég svo áfram frá Barstow til Los Angeles og flug þá um kvöldið yfir til Zurich, gisti þar eina nótt og flaug svo til Alicante þar sem ég er núna í góðu yfirlæti hjá foreldrum mínum í nýja húsinu okkar. Systir mín og dætur hennar eru hér líka og svo kemur bróðir minn eftir helgina. Við ætlum svo að eyða páskunum saman í Porto í Portúgal, borg sem mig hefur lengi langað að heimsækja. Ég kem svo aftur til Spánar með foreldrum mínum en 18.apríl held ég svo ævintýrum mínum áfram og ætla að skoða Afríku í fimm vikur, það verður nú eitthvað!!
Ætla að enda þetta blogg með mynd af ekta Amerískum eftirrétti, þeir eru eins og allt í Ameríku, stórir og miklir, en auðvitað sjúklega gott! Læt í mér heyra síðar.

Comentarios