Fréttir frá Spáni og Portúgal, undirbúningur fyrir Afríku
- gardarorn4
- Apr 15, 2023
- 3 min read
Sennilega er nú kominn tími á eins og eitt blogg frá mér. Ég hef nú bara haft það ótrúlega gott síðustu daga og vikur. Búinn að vera í góðu yfirlæti í nýja húsinu okkar á Spáni. Bróðir minn kom frá London til Spánar og systir mín og dætur hennar frá Íslandi til Spánar. Um páskana skelltum við okkur svo öll fjölskyldan til Portúgals, til hinnar stórkostlegu borgar, Porto.

Porto kom þvílíkt skemmtilega á óvart, alveg mögnuð borg. Ekta gömul, evrópsk með þröngum götum og geggjuðu mannlífi. Maturinn var algjörlega sjúkur og svo ótrúlega margt að sjá og gera þarna. Þar sem við vorum um páskana var auðvitað extra mikið af fólki alls staðar og alls staðar voru raðir eða bara ekki möguleiki á að komast að, eins og til dæmis inn í flottu bókabúðina sem mig langaði mikið að skoða. Við fórum samt í Hop on/Off ferð, skruppum á ströndina, sátum á kaffihúsum og borðuðum góðan mat. Síðasta daginn fór ég svo með foreldra mína í Tuck Tuck ferð um þröngu göturnar. En myndir segja meira en 1000 orð.
Og aðeins fleiri myndir frá Porto.
Nokkrar matarmyndir þurfa nú líka að vera, en það sem stóð hæst var auðvitað hin fræga Franciseska samloka, sem er svo miklu meira en samloka, og fæst bara í Porto. Síðasta kvöldið fórum ég, mamma og pabbi síðan í svona smakkveislu, ferðalag um Portúgal, var sjúklega gott.
Bróðir minn var með okkur fyrstu þrjá dagana en þurfti svo aftur að fara til London í vinnu. Systir mín og stelpurnar nýttu sér svo nýja beina flugið með Play frá Porto til Íslands, en Play fljúga núna tvisvar í viku þarna á milli. Ég og foreldrar mínir vorum síðan ein í tvo daga áður en við héldum aftur "heim" til Spánar eftir vel heppnaða ferð. Vorum einstaklega heppin með veður í Portúgal, sól og vel yfir 20 stiga hiti alla dagana sem var geggjað.
Hér á Spáni er ég svo bara búinn að vera í rólegheitum að mestu, svo sem margt að gera, erum ennþá að koma okkur vel fyrir á nýja heimilinu, það þarf að græja og gera eitt og annað en þetta er nú allt að smella saman og forledrar mínir hæstánægð með nýja staðinn.
En það sem er kannski helst í fréttum er að ég ætla að halda áfram heimsflakkinu mínu, en næsta heimsálfan sem ég ætla að heimsækja er Afríka. Ég hef aldrei komið til Meginlands Afríku og bæði hlakka mikið til, en á sama tíma aðeins kvíðinn, því þetta eru lönd sem eru menningalega og sögulega öðruvísi en ég hef heimsótt áður. Ég byrja samt á landi sem er mikið ferðamannaland, Marakkó, en þangað held ég næsta þriðjudag, 18.apríl. Mun skoða borgirnar Fez, Rabat og Casablanca, verður skemmtilegt. Var samt að fatta bara núna í gær að það er ennþá Ramadan, sem þýðir að ég mun sennilega verða svangur fyrstu tvo dagana..... en síðan er Ramadan lokið 20.apríl og við taka víst svaka hátíðarhöld sem verður gaman að upplifa. Næstu lönd sem ég mun heimsækja eru Egyptaland, Eþíópía, Namibía, Suður Afríka og Rwanda áður en ég kem aftur til Evrópu fimm vikum síðar, eða í lok maí.

Þessi lönd sem ég valdi að heimsækja eru öll frekar ólík en öll hafa þau sína sögu og menningu ásamt stórkostlegum náttúruundrum og dýralífi. Sum löndin hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika í gegnum tíðina en í dag eru þessi lönd talin örugg lönd fyrir ferðamenn. Ég mun kynna mér menningu þessara þjóða, skreppa í dagsferðir á spennandi staði, njóta stórborganna, borða framandi mat og fleira og fleira. Ég mun dvelja þrjá daga í þjóðgarði í Rwanda þar sem ég mun vonandi sjá hin ýmsu framandi dýr.
En já, næsta blogg verður sent út frá Afríku, þangað til hafið það sem allra best.

Comments