top of page

Land fimmtán, Bandaríkin, California og Nevada

  • gardarorn4
  • Mar 24, 2023
  • 6 min read

Já, stóru miklu Bandaríkin eru nú eins og þau eru, stórt, mikið, klikkað og svo margt annað. Ég er búinn að skoða þrjár borgir sem ég hef aldrei komið til áður, Los Angeles, San Diego og Las Vegas. Allar mjög ólíkar en líka mjög spennandi að koma á þessa staði.


EIns og ég sagði frá í síðasta bloggi þá kom ég til Los Angeles frá Nýja Sjálandi með smá stoppi á Hawaii. Ég ákvað að vera bara þrjár nætur í Los Angeles. Það er borg sem ég hef aldrei verið mjög spenntur fyrir að heimsækja, oft heyrt að hún sé ekkert spennandi og ekki margt að sjá og gera. Ég verð því að segja að borgin, eða þeir partar af henni sem ég sá kom mér stórskemmtilega á óvart. Vissulega er margt eitthvað svo stórklikkað þarna í Hollywood, Beverly Hills og á þeim stöðum, það snýst allt um peninga og aftur peninga, því flottari hús, því betra, því flottari bílar, því betra, og svo framvegis. Ég fór í tveggja tíma túr með leiðsögn um Hollywood Hills, Beverly Hills, Vestur-Hollywood og allt þetta svæði og það var mjög skemmtilegt, margar skemmtilegar sögur og var hann mikið að benda okkur á hver býr hvar og svo framvegis. Það var líka geggjað útsýnið þegar við vorum í Hollywood Hills, og ég sá líka loksins skiltið fræga.

Eftir túrinn rölti ég svo í kringum Hollywood Avenue, Walk of Fame og það allt sem er þar í gangi. Gaman að sjá þessar stjörnur um allt, mikið meira af þeim en ég hélt að væru, minnir að þær eigi að vera í kringum 3000. Líka gaman að koma þar sem handa- og fótaför fræga fólksins eru. Skemmtileg gata, mikið af túristum en líka óvenju mikið af heimilislausum einstaklingum þar, og gríðarlega mikið af Marijúana reykingum, maður var bara í hálfgerðu skýi þarna á götunni.

Daginn eftir ætlaði ég að fara í Universal Studios, en þegar ég fór að skoða það þá var uppselt þangað inn næstu fimm dagana, þannig að ég þurfti að hugsa upp annað plan. Ég ákvað því að gera daginn að strandadegi. Ég byrjaði á því að keyra til Malibu Beach. Ótrúlega skemmtileg keyrsla meðfram sjónum öðru megin og klettarnir hinum megin. Húsin í kringum Malibu voru svakalega flott og ströndin falleg, mjög rólegt þar samt enda ekki beint sólbaðsveður. Stoppaði þarna stutta stund.

Þaðan keyrði ég síðan til Santa Monica Beach. Það var ótrúlega gaman að koma þangað, mikið af fólki, fullt við að vera. Stór bryggja með tívólítækjum, veitingastaðir um allt og svakalega mikið stemning. Ég rölti þarna um allt saman, skellti mér meira að segja í rússíbana sem var bara þrælgaman. Hefði pottþétt verið gaman að vera þarna að kvöldi til, eflaust mikið fjör þar.

Mörg fleiri hverfi hefði verið gaman að skoða í LA, en ég var búinn að plana að fara í tvo daga til San Diego, þannig að ég lagði af stað þangað þarna um hádegið á föstudeginum. Skemmtileg keyrsla, sem átti að taka rúma tvo klukkutíma en tók auðvitað mikið lengri tíma, enda brjáluð umferð alls staðar í Californiu og maður þarf alltaf að gefa sér lengri tíma en áætlað er. En gaman að koma til San Diego, vissi ekkert mikið um borgina annað en að hún er með landamæri að Mexíkó. En það sem hún kom mér skemmtilega á óvart. Hún var mikil blanda af öllu, amerísk, latinó og evrópsk, allt í senn. Ég kom þarna á föstudegi og það var St. Patrick's day og það var sko heldur betur verið að halda upp á þá hátið, stærðarinnar útihátið með hljómsveitum, Riverdance, fullt af börum, veitingastöndum, sölubásum og skemmtiatriðum. Ég skemmti mér alveg konunglega, mikið og hressandi næturlífið. Það sem er samt merkilegt er að klukkan 2 lokar allt og allir fara bara heim!

Daginn eftir, á laugardeginum keyrði ég um borgina, niður að landamærunum að Mexíkó sem mér fannst auðvitað stórmerkilegt. Þetta eru víst ein fjölförnustu landamærin á milli þessara landa. Á bakaleiðinni keyrði ég meðfram ströndinni, stoppaði á strandbryggju sem heitir Imperial Beach, fullt af fólki þar og gaman að stoppa þar. Hélt svo áfram meðfram fallegri smábátabryggju og inn í borgina. Fannst borgin stórskemmtileg og falleg og langar mikið að koma þangað aftur.

Á sunnudeginum var svo komið að því að keyra til Las Vegas, sirka 6 klukkustunda ferðalag í gegnum eyðimörkina. Landslagið á leiðinni var magnað, svona eyðimerkurlandslag er svo flott, fjöllin og hólarnir svo magnaðir og síðan bara sandsléttur. Kom mér reyndar á óvart að svona mikill partur af eyðimörkinni væri í Californiu, kom ekki inn í Nevada fyrr en tæpri klukkustund áður en ég kom til Vegas.

Síðan var ég allt í einu kominn til Las Vegas, borg ljósanna, Casino, fáránleg hótel og skreytingar, þvílíka borgin!! Gisti á hóteli á The Strip, Excalibur, lítur út eins og miðaldarkastali með í kringum 4000 herbergi, aðeins, risa stórt spilavíti og fullt af veitingastöðum og þjónustu.

Eftir að ég var búinn að tékka inn fór ég á röltið og kíkti inn á hin hótelin sem liggja meðfram Strip-inu, algjör klikkun, New York New York, MGM Grand, Cosmopolitan, Luxor og fleiri og fleiri sem ég skoðaði þennan dag og í kringum þessa götu.

Um kvöldið fór ég síðan á show sem var á hótelinu, var nú reyndar hugsað fyrst og fremst fyrir konur, en ég hef gaman af því að horfa á léttklædda karlmenn þannig að ég skemmti mér ljómandi vel. Þetta show hét The Australian Thunder from Down Under og er svipað show og Magic Mike og Chippendales sem eru voða þekktir. Þetta voru allavega karlmenn sem voru með dansshow og fækkuðu fötum þess á milli. Stukku á milli borða og leyfðu stúlkum að káfa á sér. Það var alveg bannað að taka myndir en svo kom eitt atriði þar sem við fengum að taka myndir. Eftir þetta kíkti ég aðeins út á lífið, en næturlífið er ansi villt í Vegas og víða hálfberir barþjónar, bæði karlar og konur! Flestir skemmtistaðir opnir allan sólahringinn sem og Casino sem eru þarna í borginni, hálfgerð klikkun. Já, ég fór alveg aðeins í Casino, og nei, ég varð ekki ríkur eftir þessa ferð!!! :(

Á þriðjudagskvöldinu fór ég svo og skoðaði gömlu Las Vegas, Fremont Street. Það var ótrúlega skemmtilegt, öll gömlu spilavítin þar, miklir tónleikar í gangi og yfirbyggt loft með svakalegu ljósashow. Fullt af veitingastöðum og börum, alveg magnað. Síðan var hægt að fara í svona Zip Line endana á milli, algjör klikkun, enda gerði ég það ekki!!

Tvö hótel verðskulda alveg sérstaka umfjöllun, annars vegar Ceasar Palace og hins vegar the Veneterian. Þessi hótel eru bæði risa stór en þau eru líka tvær svakalega stórar verslunarmiðstöðvar með þvílíkum skreytingum. Ceasar Palace var allt fullt af styttum, gosbrunnum og fleiru svona geggjuðum rómverskum hlutum. Veneterian var í þessum ítalska stil, þar sem var eins og maður væri að ganga um í Feneyjum, meira að segja var hægt að fara í Gondola ferð innan í verslunarmiðstöðinni.

Kíkti svo aðeins inn í Kóka Kóla búðina, vissuð þið að það væri til þannig búð!! Full af sokkum og dóti með Coke lógó ásamt öðrum gosdrykkjalógó eins og Sprite og Fanta!! Fór líka inn í nokkrar nammibúðir, M&M, Herseys og fleiri, en tók engar myndir þar!

Var alveg tilbúinn að segja bless við Vegas, lætin og hávaðan sem þar er í gangi, gaman að hafa komið, veit ekki hvort ég þurfi að koma þangað aftur. Í dag yfirgaf ég því Vegas og keyrði yfir til Arizona og er í borg sem heitir Flagstaff og er nálægt Miklagljúfri. Ætla að vera hér næstu fjóra dagana og skoða Miklagljúfur, Sedona og fleiri flotta staði hér í eyðimörkinni. Hef einu sinni komið til Sedona og fannst það stórkostlegt en á alltaf eftir að koma að Miklagljúfri. Veðrið er nú ekki með mér í liði, hér er allt í snjó og snjóaði á mig á leið hingað. Núna klukkan 22 um kvöld er hitastig rétt um frostmark, verður frost á nóttunni en frostlaust yfir daginn og vonandi verður ágætlega bjart og gott veður yfir daginn. Næsta blogg verður því tileinkað Arizona. Á mánudaginn kem ég mér svo aftur til baka, áleiðis til Los Angeles en þaðan á ég flug til Evrópu á þriðjudagskvöldið og verð svo komin til foreldra minna á Spáni á fimmtudaginn.

Takk fyrir lesturinn, bless í bili!



Comments


bottom of page