top of page

Land númer þrettán, Ástralía, fyrsti hluti

  • gardarorn4
  • Feb 13, 2023
  • 6 min read

Elsku Ástralía, elsku Sydney, mikið sem ég hef saknað þess að koma hingað!!!

Ég kom til Sydney og til Ástralíu 2005 og var þá í heilan mánuð í landinu, skoðaði margt og mikið. Hefur mikið langað að koma aftur og loks kom tækifærið, 17 árum síðar. Upphaflega planið var að vera bara í tveimur borgum, en þar sem ég hafði gert ýmsar breytingar átti ég aðeins lengri tíma og gat því bætt við tveimur borgum í viðbót og þetta blogg fjallar um fyrri tvær borgirnar, Sydney og Adelaide. Tvær frábærar borgir, en mjög ólíkar!

Byrjum á Sydney. Það er bara einhver ljómi yfir þessari borg. Það er alveg ótrúlega skemmtilegt að labba um öll fallegu hverfin í borginni, miðborgin er alveg geggjuð, svo eru strendurnar allt í kring og bryggjan fræga, með Óperuhúsinu og svo stóra brúin, hvoru tveggja svo stór kennileiti fyrir borgina.

Ég stoppaði bara tvo heila daga í Sydney. Hótelið mitt var aðeins í burtu frá miðbænum, í hverfi sem heitir Potts point og er eitt af elstu hverfum Sydney borgar. Lágreist byggð og mikið af fallegum almenningsgörðum allt í kring, og þvílíkt mikið af hundum og hundaeigendum, sjaldan séð jafn marga hunda í stórborg áður. Það var virkilega skemmtilegt að rölta um þennan hluta borgarinnar.

Daginn eftir fór ég síðan niður í bæ, niður að Circular Quay þar sem Óperuhúsið stendur, og the Rocks sem er svona miðbærinn með öllum háhýsunum. Það er svo geggjað að vera bara þarna á þessu svæði og njóta mannlífsins. Fór svo í siglingu til Manly sem er ein þekktasta ströndin á svæðinu, en þegar ég var hérna 2005 þurfti ég alltaf að fara þangað til að taka strætó þar sem ég gisti þannig að það var gaman að koma aftur á það svæði.

Um kvöldið tókst mér síðan að fá miða á sýningu í Óperuhúsinu. Reyndar ekki í stórum sal, heldur minni sal, en engu að síður þvílík upplifun að fá að fara á sýningu í þessu stórkostlega húsi. Sýningin var nokkurs konar kabarett með miklum áhættuatriðum, hálf naktir karlmenn að sveifla sér í hring hátt yfir sviðinu, hjólaskautapar ásamt miklum söng og dansi, alveg ótrúlega skemmtilegt. Auðvitað mátti ekki taka myndir, en ég stalst aðeins!

Þrátt fyrir þriðjudagskvöld þurfti ég nú aðeins að kíkja út á lífið, en Sydney er þekkt fyrir ansi hressilegt næturlíf, og gay lífið er ansi fjölbreytt líka. Ég er samt hér tveimur vikum of snemma því eftir miðjan febrúar hefst World Pride í Sydney, sem hefði verið mjög gaman að taka þátt í. En þannig er það bara. Ég fór samt bara aðeins út á lífið, lenti á skemmtilegri Karaoke keppni sem ég fylgdist með, spjallaði við fólk og hafði gaman. Var kominn svo heim á hótel um kl 3, enda nóg að gera daginn eftir, síðasta daginn í Sydney!

Daginn eftir var ég búinn að panta mér tíma hjá lækni þar sem mig skorti ennþá eina bólusetningu til að vera fullbólusettur fyrir öllu, en það var Yellow Fever bólusetning. Þeir eru með ýmsar einkastofur sem hægt er að fara á og ég fékk bara tíma mjög fljótlega hjá þeim. Heimsóknin tók um klukkustund, skemmtilegt viðtal við eldgamlan lækni sem er búinn að starfa sem ferðabólusetningalæknir í tugi ára, en í Covid stýrði hann svo Covid bólusetningamiðstöð. En ég er allavega kominn með góða bólusetningu núna :)

Eftir þessa frábæru daga í Sydney var kominn tími til að fara til borgar sem ég hef ekki farið til áður, Adelaide í Suður-Ástralíu. Mjög sæt borg, frekar lítil og þægileg, allt í göngufæri, húsin meira og minna öll svona lágreist og mjög mikið af almenningsgörðum. Í gegnum borgina rennur svo mjög falleg á sem ég vissi ekki fyrr en síðasta daginn að hægt væri að fara í siglingu á, þannig að ég verð bara að gera það næst.

Það gerði alveg svakalegt óveður í Sydney þennan dag sem ég átti að fljúga til Adelaide þannig að það var meira og minna allt í klessu á flugvellinum, lofthelginni var lokað í rúmar þrjár klukkustundir og margir sem komust ekki leiðar sinnar. Sem betur fer seinkaði mínu flugi ekki nema um rúmlega 90 mínútur, en það var komið fram á kvöld þegar ég loks komst til Adelaide, þannig að fyrsta kvöldið var rólegt, rölti aðeins um hverfið, tók nokkrar myndir og fékk mér Subway :) Óveðrið var nú svo sannarlega ekki í Adelaide, því þegar við lentum þar var hitastigið 33 gráður, ansi hreint vel heitt!! En það kólnaði heldur dagana á eftir sem betur fer, og kvöldin voru bara furðu köld.

Daginn eftir fór ég svo í langan göngutúr um borgina. Ótrúlega margt að sjá, byggingarnar alveg ótrúlega flottar margar hverjar, mikið af kirkjum þarna. Svo er stór háskóli þarna og háskólasamfélag, og auðvitað kíkti ég aðeins inn í hjúkrunarskólann sem virtist mjög nútímalegur og flottur. Þeir eru með stórt hermisetur en því miður gat ég ekki skoðað það því þar var verið að prófa nemendur. EIns er mikið af söfnum í Adelaide og ég kíkti á tvö þau stærstu, annars vegar Sögusafnið, sem sýndi mikið af gripum frá frumbyggjum Ástralíu með fókus á Suður-Ástralíu, en einnig mikið á sjávarlífið hér í kring sem og lítil deild með Egypskri sýningu og Kyrrhafseyjasýning, mjög gaman. Síðan kíkti ég á listasafnið, sem var blanda af Ástralskri list og alþjóðlegri, og blanda af bæði nýlist og gamalli, mjög áhugavert allt saman. EIns fór ég inn í eldgamalt bókasafn sem var alveg magnað að koma inn í og fá að handfjatla þessar gömlu bækur. Það er mjög mikið af styttum og skúlptúrum um alla borg, og eins og svo víða mikið af minningarreitum, bæði eftir heimstyrjaldirnar og eins Víetnam stríðið.

Jú, auðvitað kíkti ég nú aðeins á næturlífið, eins og ég geri á flestum stöðum. Alls staðar var maturinn alveg geggjaður, og borgin er stútfull af kokteilbörum, með hverjum kokteilunum betri, þannig að ég prófaði nokkra þannig. Auðvitað fann ég líka stað þar sem var smá dragkeppni í gangi, sem var ótrúlega skemmtilegt að sjá. Það mætti halda að ég sæki í það að skoða drag alls staðar sem ég fer, en það er alls ekki þannig, en þetta virðist vera gríðarlega vinsælt á gay stöðunum sem ég fer á. Í Adelaide var nú bara einn gay staður þannig að ekki var um mikið að velja, en það var samt þrælskemmtilegt. Þjóninn á einum veitingastaðnum sem ég fór á var búinn að skrifa fyrir mig á miða alla bestu kokteilstaðina, þannig að auðvitað heimsótti ég þrjá þeirra :)

Síðasta daginn fór ég svo og rölti niður meðfram ánni, sem var alveg stórkostlegt, ótrúlega fallegt og gaman að koma á það svæði, hefði viljað fattað það fyrr því það var mjög stutt frá hótelinu mínu. Auðvitað var myndavélin með í för.

Að lokum ætla ég að segja frá skandal sem ég geri. Ég hef í fjölda ára velt því fyrir mér að fá mér húðflúr en hef alltaf guggnað, aldrei vitað hvað ég ætti að fá mér, hvar og hvort ég almennt sé spenntur fyrir því að vera með þetta á mér forever. Hins vegar villtist ég inn á Tattoo stofu og þar tók á móti mér ótrúlega almennilegur maður, hann róaði mig alveg niður, svaraði öllum áhyggjuspurningum mínum og hjálpaði mér að taka rétta ákvörðun hvort þetta væri fyrir mig eða ekki. Þannig að þá segir maður bara fokk it, og lætur vaða!!! Þannig að ég er kominn með mitt fyrsta tattoo og ég gæti ekki verið sáttari við það, ennþá núna nokkrum dögum síðar :)

Þannig er nú það, lífið krakkar mínir, maður á að lifa því og njóta, og ég er að því í þessari ferð, gera hluti sem ég myndi ekki endilega gera, allt samt innan skynseminnar vonandi og ætla ekki að sjá eftir neinu :)

En núna hef ég kvatt Adelaide og er kominn til Vestur-Ástralíu, til Perth. Hér ætla ég að vera fram á föstudag og skoða þessa borg sem er sú borg sem er lengst frá öllum öðrum borgum í Ástralíu. Þegar ég kom út úr flugvélinni áðan tóku á móti mér 36 sólargráður, en ég held og vona að það verði ekki svona heitt næstu daga. Á föstudaginn fer ég svo til Brisbane, alveg hinum megin í landinu, í Queensland, þar sem ég mun vera í viku. En meira um það síðar.

Bestu kveðjur héðan Down Under!



Opmerkingen


bottom of page