Land númer 2, Barein
- gardarorn4
- Nov 27, 2022
- 3 min read
Barein! Hvað skal segja? Ég er mjög hrifinn af því sem ég hef séð. Í fyrsta lagi var ekkert vandamál með að komast inn í landið, tollararnir létu mig svo gott sem í friði, þurfti að renna töskunni inn í gegnum gegnumlýsingartæki en það var nú lítið mál, svo var ég bara velkominn í landið :) Þannig að ég á engar skemmtilegar flugvallasögur handa ykkur frá þessu landi, leiðinlegt fyrir ykkur, en sem betur fer fyrir mig :) Flugið hingað yfir tók ekki nema rúmar 40 mínútur og var bara ljúft og gott.


Ég gisti á einu af flottari hótelunum í bænum, Crown Plaza, sem ég reyndar
hélt að væru fjórar stjörnur, en reynist víst vera fimm stjörnur, lúxusgaurinn ég heldur betur glaður með það. En þetta er risa stórt hótel og mjög vinsælt meðal bæði viðskiptaferðalanga sem og venjulegra ferðamanna. Það hefur allt að bjóða sem hægt er, fjórir veitingastaðir (já, búinn að prófa þá alla), þrír barir (jabbs, líka búinn að prófa það), sundlaug og sólaraðstöðu (ekki prófað), spa sem er fokdýrt og ég lét það eiga sig ásamt ýmsu öðru. Ég er auðvitað bæði búinn að nýta mér room service og þvottavélaþjónustu þeirra, allt til fyrirmyndar og ótrúlega góð þjónusta. Það sem reyndar kom mér spánskt fyrir sjónir er næturklúbburinn sem er hérna, ég kíkti á hann strax á fimmtudagskvöldið, enda eru það aðal djammkvöldin í Arabalöndum.

Þar eru nokkrar fáklæddar rússneskar stúlkur sem dansa og syngja og viðskiptahópurinn, júbbs, allt miðaldra karlmenn! Hálf sem ég skammaðist mín þarna inni og dreif mig yfir á Karaokeklúbbinn við hliðiná, þar sem þær
rússnesku voru í aðeins meiri klæðnaði og sungu bakraddir fyrir þá sem það vildu og indversku barþjónarnir voru duglegir að bera drykki í gestina. Þetta var áhugaverð upplifun þetta kvöld.

Miðborg Manama að kvöldlagi í siglingu
En sennilega viljið þið ekki heyra djammsögur frá Barein, heldur hvernig þetta litla land kom mér fyrir sjónir. Ég er búinn að vera mjög duglegur að rölta hér um þrátt fyrir ansi hreint mikinn hita, yfir 30 gráður á daginn og ekki mikið kaldara á kvöldin en talsvert mikill raki. Saknaði þess aðeins að vera ekki með bíl til að komast á milli staða þar sem almenningssamgöngur hér eru nánast engar og fáa leigubíla að hafa. Hér í Diplómatíska hverfinu sem ég bý í í Manama er mikið af háhýsum, hótelum, verslunarmiðstöðvum, sendiráðum og stjórnsýslubyggingar. Það er einstaklega áberandi hvað allt er hreint og vel til haft og mikil öryggisgæsla við allar byggingar. Þegar komið er síðan í miðbæ Manama, þá er aðeins annað uppi á teningnum, mun hrörlegri byggingar, allt mikið lágreistara og mikið af fólki á ferli. Þar var samt einstaklega gaman að rölta um á meðan kvöldbænin glumbdi út úr öllum moskunum. Þarna kom ég á stórt markaðssvæði, svokallað Souq þar sem úði og grúði af öllu sem hægt var að hugsa sér, og mikið af klæðskerum sem mér er sagt að geti saumað hvað sem er ef maður hefur smá tíma aflögu. Þetta var virkilega skemmtilegt hverfi að heimsækja.
Gull Souq í miðborg Manama
Ég fór einnig og skoðaði þjóðarsafn þeirra Barein búa þar sem farið er í gegnum söguna á mjög skemmtilegan og fróðlegan hátt. Það er farið vel í gegnum sögu perlunnar, en Bareinbúar eru þekktir fyrir að hafa kafað mikið eftir perlum hér við strendur, áður en olían kom til. Eins var þar sýning á ljósmyndum sem frægur ljósmyndari héðan hafði tekið neðansjávar. Einnig var virkilega fallegt að horfa á borgina í ljósaskiptunum fyrir utan safnið.
The National Museum
Myndir frá National Museum
Ég hefði alveg viljað skoða meira af eyjunni, hefði betur leigt mér bílaleigubíl, enda sýnist mér umferðin hér mun skárri en á síðasta stað og hefði þá haft aukin tækifæri til að keyra um eyjuna alla og kannski eyða tveimur eða þremur nóttum á einhverju fimm stjöru resort hóteli við strandlengjuna. Það verður bara næst. En Barein fær topp einkunn frá mér og ég mæli með því að fólk komi hingað sem vill upplifa aðeins nútímalegri Arabaheim.

Manama í ljósaskiptum
Núna fer ég á morgun yfir til Abu Dhabi, en þangað hef ég komið áður og fannst sú borg stórfengleg á sínum tíma. Ég er þar bara í rúman sólahring á milli fluga og mun því bara gista á flugvallahótelinu þar þannig að ég ætla aðeins að láta það ráðast hvað ég geri þar, hvort ég skreppi í bæinn eða taki total afslöppun áður en en næsta land verður heimsótt, sem er Azerbaijan, en ég á flug til Baku eldsnemma að morgni miðvikudags. Hugsa að þið heyrið ekki frá mér aftur fyrr en ég kem þangað, þangað til hafið það sem allra best og takk kærlega fyrir frábærar viðtökur við ferðasögu minni :)

Gott að allt gengur vel Skemmtilegar myndir kv sú gamlja😍
لطيف جدًا :)
Hve gott að frétta af þér, og æðislegt að lesa þetta allt og skoða myndir.
Flott frændi🤩