top of page

Land númer 5, Suður-Kórea

  • gardarorn4
  • Dec 15, 2022
  • 6 min read

Já, ég er svo sannarlega kominn til Suður-Kóreu, nánar tiltekið til Seoul!!!

Þetta er svo gjörsamlega sturlað land og ég er svo glaður að vera loksins kominn hingað, enda hefur það verið draumur minn í fjölda ára að koma til Kóreu, eiginlega verið fjarlægur draumur, átti ekki endilega von á því að ég myndi láta verða af því en hingað er ég kominn.

Ég tók næturflug frá Kasakstan og hingað yfir, tók einhverja fimm klukkutíma þvert yfir Kína og hingað niður eftir. Ótrúlega flott að horfa út um gluggann og skoða Kína fyrir neðan og eins var stórkostlegt þegar við vorum að koma inn til lendingar í Seoul, sjáið myndirnar!

Efri myndir, yfir Kína, neðri myndir við lendingu í Seoul

Ég kom auðvitað dauðþreyttur til Kóreu, enda náði ég ekkert að sofa í flugvélinni en ég var svo svakalega spenntur að ég ætlaði ekki að geta lagt mig þegar ég loks komst á hótelið þarna um hádegið. Ég var búinn að lesa mér til um að auðveldast væri að ferðast með neðanjarðarlestunum í Seoul því umferðin væri algjört helvíti og gekk það furðu vel, var einhverjar rúmar 50 mín að komast á hótelið með lestinni, þurfti ekki að skipta og hótelið var bara um leið og ég kom upp úr kerfinu. Hefði getað reiknað með 90 mín hefði ég tekið taxa og margfalt dýrara. Það er auðvitað þannig að í stórborg eins og Seoul þar sem búa yfir 10 milljón manns verða almenningssamgöngur að vera góðar og þær eru það svo sannarlega hér, enda eyðir maður talsvert löngum tíma neðanjarðar til að komast á milli staða. Það eru líka skápar um allt með öndunargrímum, svona ef það myndi kvikna í eða eitthvað gerast, en þeir hafa lent í árásum á neðanjarðarlestarkerfið sitt fyrir nokkrum árum og hægt er að hlusta á þátt um það hjá Veru Illauga í Ljósi sögunnar. Það er líka magnað, að hér fara allir í röð, bæði til að komast inn í lestina og út úr henni, og ennþá frekar þegar komið er út og farið er í rúllustigann, þá er enginn troðningur, fólk bara röltið aftast í röðina og allt gengur eins og í sögu, margir sem mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.

Fyrsti dagurinn minn fór því að mestu í hvíld, en ég gisti á rosalega fínu Holiday Inn hóteli í hverfi sem nefnist Hongdae, mjög vel staðsett og stutt í allar áttir. Mikið af veitingastöðum, verslunum og þjónustu allt í kringum hótelið og mikið af ljósum og skemmtun. Mæli heilshugar með þeirri staðsetningu.

Daginn eftir fór ég svo í þetta týpíska túristarölt, tók lestina niður í bæ og fór af stað. Byrjaði á því að skoða gamalt hverfi sem nefnist Bukchon Hanok Village, en það samanstendur af lágreistum gamaldags húsum í kóreskum stil. Þarna bæði býr fólk sem og þjónusta ýmiskonar. Var mjög áhugavert að rölta þarna um í brekkunum, leið eins og ég væri alls ekki lengur í stórborg, heldur í smábæ langt í burtu.

Næst lá leið mín inn í Seoul Folk Museum en þar fyrir innan er staðsett höll eða hallarsvæði sem nefnist Gyeongbokgung Palace og er stærsta svæði sinnar tegundar í Seoul, enda var það svakalega stórt. Þar var mjög mikið af fólki klædd í kóreska þjóðbúninga, kallaðir Hanbok og voru að taka myndir og skemmta sér. Mest var þetta ungt fólk og kom mér svoldið á óvart hversu mikið af fólki þetta var þar sem það var mánudagur og ekki vissi ég til að um frídag sé að ræða. Komst að því síðar að þetta væri bara ótrúlega vinsælt meðal unga fólksins að klæða sig upp og koma þarna saman, skemmtilegt. Ég skemmti mér vel að fylgjast með fólkinu, skoða þessar fallegu byggingar og njóta mannlífsins.

Áfram hélt ég röltinu mínu um borgina. Kom í hverfi sem nefnist Insadong sem er þekkt fyrir helgarmarkað og alls kyns verslanir. Einnig var ég að rölta um hin og þessi stræti sem eru í Seoul og ég þekki ekki nöfnin á. Allt í einu var ég kominn á þann stað sem sagður er heilagastur meðal Búddista, Seoul Jogyesa Temple. Það var ótrúlega skemmtilegt svæði og auðvitað skellti ég mér inn í hofið þar sem fólk var að biðja á fullu og tók ég myndir þar inni, en þegar ég kom út rak ég augun í að myndartökur væru bannaðar, ÚPS! Þetta var samt mögnuð upplifun að koma þarna inn.

Eftir alla þessa göngu hlaut eitthvað undan að láta, en ég lenti í því að fá svona líka hrottalega beinhimnubólgu í vinstri fótinn, gat varla gengið. Hugsaði fyrst allt það versta að ég væri að fá blóðtappa, en nei nei, verkurinn var ekki þannig, heldur beint framan á sköflungnum. Þá var ekkert annað í stöðunni en að fara heim og hvíla fótinn aðeins. Haltraði út um kvöldið ennþá að drepast til að fá mér að borða, enda maturinn sjúklega góður hérna. Þetta var á mánudegi, á þriðjudeginum var ég svo gott sem rúmfastur, shit hvað ég fann til í fætinum en staulaðist um til að fá mér að borða, ákvað að vera ekki að taka neina óþarfa áhættu með þennan fót, enda þarf hann að duga mér árið að minnsta kosti.

Í gær, miðvikudag var ég ennþá mjög slæmur, en ég þurfti að skipta um hótel, hafði ákveðið að skipta dvölinni niður á tvö hverfi þannig að ég skakklappaðist í lestina og á nýja hótelið sem er staðsett í hverfi sem heitir Itaewon og er þekktast fyrir fjölbreytta veitingastaði og skemmtanalíf. Þetta er hverfið þar sem varð mjög mannskætt slys fyrir stuttu þar sem á annað hundrað ungmenni tróðust undir á Halloween, mjög sorglegur atburður. Þar sem fóturinn var ennþá svona slæmur gerði ég nú ekki mikið eftir hótelskiptin, skrapp samt í apótek og lýsti þar raunum mínum og fékk eitthvað voða fínt Roll on dæmi með deyfingu og bólgueyðandi kremi. Rölti svo um hverfið um kvöldið, enda fóturinn aðeins betri, ótrúlegt en satt. Í gær gerði svo hörkufrost hér í borg, 10 stiga frost og ógeðslega kalt og þeir eru ekki mikið að hita upp húsnæðin sín þannig að það er bara peysa og úlpa innan dyra. Vaknaði svo í dag, fimmtudag og jú, finn ennþá verki í fætinum en þetta er allt annað þannig að ég var að velta fyrir mér að skella mér á röltið, en þá er veðrið ekki alveg að hjálpa, frost og mikil snjókoma þannig að ég ákvað að rölta bara um í hverfinu og skrifa þetta blogg.

Ég á ennþá eftir að fara og skoða mig betur um í borginni, ég hef ennþá helgina því ég verð hér fram á sunnudag þannig að vonandi vera bæði veður og fótur mér hagstætt næstu daga. Reyndar er spáð kuldakasti hér eins og á Íslandi, upp undir 15 stiga frost um helgina, það verður stuð heldur betur. Eins þarf ég að kynna mér betur þessa frægu tónlistarstefnu þeirra, K-Pop sem allur heimurinn er hrifinn af. Ég þarf líka að skoða Gangnam hverfið, þaðan sem lagið Gangnam Style er frá. https://www.youtube.com/watch?v=cGc_NfiTxng


Eitt sem mér finnst mjög fyndið hérna, ég geri fátt annað en að fá viðvaranir í símann minn, og það með engum smá hávaða. Byrjaði fyrst bara á flugvellinum og ég vissi ekkert hvað var í gangi því það stendur allt á kóresku, en komst að því síðar að um var að ræða Covid viðvörun. Núna í þessu vetrarveðri hafa svo tilkynningar streymt inn sem ég hef svo sett jafnóðum í translate, því ekki vil ég missa af því ef eitthvað stórt er að gerast, en sjáið sjálf hverju er verið að vara við, þeir eru með belti og axlabönd hér, ekki hægt að segja annað.

Seoul er æðisleg borg, vildi að ég gæti verið búinn að skoða meira en það verður næstu daga, og ég á pottþétt eftir að koma hingað aftur á öðrum árstíma og ferðast þá um landið þvert og endilangt. Eins langaði mig að fara upp að landamærunum að Norður-Kóreu, svokallað DMZ svæði, en það eru ennþá miklar takmarkanir þangað vegna Covid og þeir geta bara sýnt manni hluta af svæðinu þannig að það bíður betri tíma. Það getur vel verið að ég skrifi eitthvað meira um Seoul um helgina ef eitthvað skemmtilegt rekur á fjörur mínar, en annars held ég á næsta spennandi áfangastað á sunnudaginn, Taipei í Taívan, verður gríðarlega spennandi. Kveð í bili.



1 Comment


Elva Hrund Ingvadóttir
Elva Hrund Ingvadóttir
Dec 15, 2022

Takk fyrir þessa skemmtilegu frásögn. Vona að fóturinn böggi þig ekki meira.

Kv. Elva

Like
bottom of page