Land númer 1, Kúveit
- gardarorn4
- Nov 23, 2022
- 4 min read
Updated: Nov 27, 2022
Hvað vitum við um Kúveit? Mest lítið nema hvað að það varð sögufrægt fyrir að vera land sem Írakar réðust inn í árið 1991 og markaði upphaf Persaflóastríðsins. Eins eru þeir mjög ríkir af olíu en fátt annað er landið þekkt fyrir. Mér þykir alltaf áhugavert að koma á staði sem hafa orðið fyrir stríðsátökum og því var ég spenntur að koma hingað, þrátt fyrir að flestar ferðahandbækur sem ég hafði lesið væru sammála um að hér væri lítið við að vera og ekki þyrfti langan tíma í landinu.
Ég flaug hingað frá París með þjóðarflugfélaginu þeirra, Kuwait Airways. Ég ákvað að vera mjög grand á því og uppfærði mig upp á fyrsta farrými þar sem ég gat lagst út af og hvílt mig á meðan á fluginu stóð og var þjónustan bara ágæt og flugið fremur tíðindalítið. Ég gladdist yfir hvað þetta gekk allt saman vel, lentum vel á undan áætlun og ég glaður að vera kominn hingað loksins, en þá byrjuðu ævintýrin.
Ég byrjaði á því að fara þrisvar í vitlausa röð til að fá stimpil á vegabréfaáritun, en loksins hafðist það og þá tók við löng bið eftir farangrinum en loksins komst taskan og ég á leið inn í landið. En nei, tollvörðurinn var nú ekki alveg á því, skipaði mér á bakvið og sagði svo við mig strangur á svip "Er þetta regnbogalitir á þessu bandi utan um töskuna?" Ég stamaði út úr mér að þetta væri nú bara band sem ég hafði keypt í Kínabúð á Spáni og hefði verið svo sniðugt með svona fínum lás. "Já, þetta er bannað í Kúveit". Ok, sagði ég og hélt ég væri sloppinn fyrir horn, en aldeilis ekki. "Opnaðu töskuna þína og sýndu mér öll lyf sem þú ert með hérna!" Ég auðvitað ferðaðist með apótek með mér og var hver einasti pakki skoðaður í bak og fyrir, sló inn allar upplýsingar um lyfin í símann hjá sér og ég þurfti að skýra út notkun hvers lyfs fyrir sig. Eftir góða stund stóðu eftir þrjú lyf sem þóttu "ólögleg" í landinu og mér skipað inn á skrifstofu tollstjóra ásamt lyfjunum! Eftir nokkra reikistefnu um hvað ætti að gera var mér og lyfjunum sleppt lausum þar sem ég gat sýnt fram á læknisvottorð fyrir þessu öllu og ljóst að ég væri ferðamaður á förum bráðlega! Þetta voru ansi stressandi 30 mínútur eða svo. Þeir voru hins vegar allir hinir kurteisustu, buðu mér vatn að drekka og allt í góðu.

Mikið sem ég var glaður þegar ég loks komst fram í komusalinn, en þá fór ég í að leita mér að bílaleigubílnum sem ég hafði pantað mér. Það hafðist loks og þá tók nú við LÖNG bið á meðan allir pappírar voru fylltir út, mörg skjöl í tví- og þríriti og loks þegar því var lokið þurfti hann að pikka allt inn í tölvuna....... eins gott að ég var ekkert mjög óþolinmóður...... Tveimur klukkustundum eftir að flugvélin lenti var ég loks á leið á hótelið í höfuðborginni, Kuvait City.
Borgin minnir um margt á Dúbæ eða aðrar stórar borgir í Mið-Austurlöndum þar sem háhýsin eru um allt og greinilegt að landið er gríðarlega ríkt. Fólkið er allt saman mjög almennilegt og þjónustan á veitingastöðum og í búðum og hótelum gríðarlega góð. Allir tala góða ensku, enda enska notað sem viðskiptatungumál hér. Konur eru bæði vestrænt klæddar sem og í svörtum alklæðnaði, en meirihluti er bara með hárið hulið. Karlarnir eru mjög margir í þessum hvíta "kjól" og með höfuðfat. Veðurfar gott, 30 stig á daginn en kólnar á kvöldin.
Ég hef keyrt um en umferðin er skelfileg hér, stefnuljós eru ekki notuð og akreinar eru svona og svona virtar eftir því hvað hentar hverju sinni. Rauðu ljósin eru endalaust lengi og mikið um umferðarteppur. Ég er bara búinn að lenda í einum hálfgerðum árekstri, smá nuddi. Hins vegar hefði ég ekki viljað vera án þess að vera með bíl því langt er á milli staða og ekki góðar samgöngur. Þeir gera ekki mikið fyrir túrista, engar túristarútur eða skipulagðar ferðir og meirihlutinn af því sem ég hef reynt að heimsækja hefur verið lokað eða ég hreinlega ekki fundið út úr því hvernig ég get komist inn. Ég hef þó heimsótt bæði Kuwait Towers sem var svakalega flott, The National Museum of Kuwait sem var líka mjög skemmtileg heimsókn, kíkt í verslunarmiðstöðvar sem nóg er af og borðað á bandarískum keðjuveitingastöðum eins og The Cheesecake Factory og Starbucks.

Kuwait Towers
Ég rúntaði líka inn í eyðimörkina eftir veg sem nefnist Hraðbraut 80, eða öðru nafni "The Highway of Death" en á enda þessa vegs eru landamærin að Írak sem mér þótti ótrúlega spennandi að sjá, enda landamæraáhugamaður :)

Landamæri Kúveit og Íraks
Ég flýg héðan á morgun en næsti áfangastaður er Barein, hef heyrt margt gott af Barein og hlakka til að koma þangað, þar get ég líka fengið mér bjór, en í Kúveit er allt áfengi bannað og varðar það við lög að vera undir áhrifum áfengis.

National Museum
Svona til að draga þetta saman, þetta hafa verið áhugaverðir dagar í Kúveit, ég er ánægður með að hafa komið hingað og mér finnst landið vestrænna en ég bjóst við og greinilega komnir framarlega með margt, en eftir á með margt. Verðlag er frekar mikið dýrt, allur matur og drykkur kostar hálfan handlegg, en eitt er samt ódýrt, það er bensín. Ég keypti 33 lítra af bensíni og borgaði rúmar 1200 kr íslenskar!!

Kúveiskur dínar, verðmætasti gjaldmiðill í heimi
Langar mig að koma hingað aftur, ég efast um það. Næsta blogg frá mér verður frá Barein, stay tuned.

Kúveit að kvöldi

Kúveit að kvöldi, sjónvarpsturninn og moska
Gott að þú komst heill úr þessu æfintýri gsngi þér vel😎
Ég verð að viðurkenna að ég hefði viljað eiga á upptöku þessa flugvallarupplifun. Áttu ekki einhvern skræpóttan regnbogabol til að vera í við brottför frá landinu?
Jeminn eini, þessi flugvallaupplifun! Mæli með að hvíla röndótta töskubandið þegar þú ferð í næsta múslimaland ;)
Dásamlegt að fá að fylgjast með þér vinur.
Gaman og fróðlegt að fylgjast með❤️