top of page

Land númer ellefu, Singapore

  • gardarorn4
  • Jan 31, 2023
  • 2 min read

Þetta verður nú bara stutt blogg, enda mjög stuttur tími sem ég hafði hér í Singapore, rétt rúmlega sólahringur. Merkilegt samt hvað manni tekst að gera oft sæmilega mikið þegar maður hefur lítinn tíma. Var reyndar óheppinn með veður, talsverð rigning, en ég hljóp út á milli rigningaskúra og smellti af nokkrum myndum.

Ég hef einu sinni áður komið til Singapore, nokkur ár síðan, og man ég að það var æðislegt að koma hingað, mjög fjölbreytt menning, enda margir menningaheimar sem koma saman hér, það tala nokkurn veginn allir ensku þannig að tjáskipti eru auðveld, samgöngur góðar og auðvelt að rölta um borgina, fyrir utan hita og raka. Maturinn er rosalega góður hérna líka, sambland af ýmsum heimum. En þar sem ég hafði lítinn tíma núna var ég mest í kringum hótelið mitt við Clarke Quay bryggjuna, sem er svæði sem ég var lítið að skoða á sínum tíma. Þar skoðaði ég kínverskt hof sem var mjög flott. Röti svo niður í bæ meðfram ánni sem rennur í gegnum borgina og tók nokkrar myndir af byggingum og styttum á leið minni.

Þegar ég kom niður í bæinn ákvað ég að fara í stóra parísarhjólið sem þeir eru með hérna. Það er stærsta parísarhjól Asíu, fer upp í 165 metra hæð og maður sér ansi vel til allra átta. Áður en maður fær að fara um borð er farið með mann í gegnum sögusafn Singapore, þeir kalla þetta nokkurs konar tímavél (Time Capsule) þar sem sagan er sögð í máli og myndum, aðalega hreyfimyndum, sem var mjög skemmtilegt. Eins gaman að sjá Singapore frá hjólinu.

Þegar ég kom svo loks niður var byrjað að hellirigna aftur og því ekkert annað að gera en að hoppa upp í næsta leigubíl og bruna á hótelið, þar sem ég ákvað svo bara að vera um kvöldið og borða og slappa af og fara snemma að sofa, enda stór dagur í dag.

Ég sit núna á Singapore Changi flugvellinum og bíð eftir að flugvélin min til Nýju Kaledóníu fari af stað. Það er nú þegar 75 mín seinkun þannig að ég hef haft ágætis tíma til að slappa af á flugvellinum, borða og skrifa blogg. Hér er svo líka þessi stórskemmtilegi og geggjaði Fiðrildagarður þar sem ég tók þessar myndir.

Þannig að já, núna eru tæpir tveir klukkutímar í að ég fljúgi til Noumea í Nýju Kaledóníu þar sem ég ætla að slappa af og hlaða mig upp á nýtt næstu vikuna. Þetta er tæplega 9 klst langt flug þannig að ég ætla bara að reyna að sofa og hlusta á hljóðbækur. Margir hafa spurt mig hvar þessar eyjur eru, set hér að neðan sirka staðsetningu á þeim.

Þangað til næst, hafið það sem best :)

Kommentarer


bottom of page