Land númer sex, Taívan
- gardarorn4
- Dec 22, 2022
- 3 min read
Það er nefnilega þannig að ekki hafa öll löndin sem ég ætla til verið á upphaflega planinu og það á svo sannarlega við um landið sem ég er staddur í núna, Taívan. Ég í raun hef aldrei hugsað mikið um þetta land, vissi af því og að það væri eyja rétt hjá Kína en annars ekkert mikið meira. Byrjaði að gúggla og komst að því að um væri að ræða áhugavert og skemmtilegt land heim að sækja. Ég get vottað um það, þetta land er algjörlega æðislegt. Mikið sem ég er glaður að hafa komið hingað og fengið að upplifa það sem þessi litla eyja hefur upp á að bjóða. Fyrir utan að eftir að hafa verið í löndum sem virkilega virða mannréttindi einskis þá er frábært að koma til lands sem leggur mikið upp úr mannréttindum allra, og gott dæmi um það er að þetta var fyrsta land Asíu til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra.
Ég flug hingað frá Seoul með Eva Airways, taívönsku flugfélagi, algjörlega frábær þjónusta um borð og gott flug. Lenti á flugvellinum í Taipei og tók leigubíl á hótelið mitt, sem er staðsett í frábæru hverfi mjög miðsvæðis í borginni. Kom hingað seint að kvöldi þannig að það var fátt annað að gera en að skella sér í ból fyrir komandi ævintýri. Skrapp samt í búðina og fékk smá sjokk! Þeir eru vitlausir í Hello Kitty eins og sjá má af myndunum úr búðinni 😀
Næsta dag fór ég svo og skoðaði mig um í nærumhverfinu og komst að því að ég bý í frábæru hverfi, allt morandi af litlum og stórum búðum, markaðsstemning á hverju götuhorni, matarvagnar um allt, barir og veitingastaðir. Brjálað mannlíf og mikið af ljósum. Skellti mér í hop on hop off túr um borgina sem var ótrúlega skemmtilegt og ljóst að ég átti eftir að skoða ansi margt næstu daga.
Borgin er algjörlega frábær, svo gaman að rölta um hana, alls staðar eitthvað nýtt að sjá og upplifa. Fór upp að byggingu forsetans sem er rosalega flott, fór inn í minningargarð sem nefnist Chiang Kai - Shek, ótrúlega skemmtilegur staður með þetta minningarhús í miðjunni en sitthvorum megin er annars vegar tónlistarhöll og hins vegar leikhús. Hélt áfram í verslunarhverfið Taipei 101 með öllum háu byggingunum. Síðan eru það öll hofin sem eru hérna, en Taívan hefur mest af hofum miðað við höfðatölu í heiminum. Ýmist er um að ræða búddahof eða taóisma hof, en hér er fjölmennasti hópur Taóisma, sem ég reyndar veit lítið sem ekkert um. Ég finn samt alveg fyrir einhverri orku þegar ég kem á þessa staði, ótrúlegt að upplifa þetta, og frekar notalegt líka. Auk alls þessa er ég búinn að tölta um verslunargöturnar sem selja allt, helmingurinn skil ég nú ekki hvernig selst, veit ekkert hvað þetta er. Rölti svo með fram ánni í dag sem var ótrúlega skemmtilegt. Eins er svo frábært að sjá hvað samkynhneigð er opin hérna og viðurkennd í samfélaginu.
Ég verð auðvitað aðeins að tala um matinn. Matarmenning í Taívan er mikil, hér eru fjöldi allur af Michelin veitingastöðum og auðvitað fór ég á einn slíkan sem var ítalskur með frönsku og taívönsku ívafi, geggjað góður. Þeir eru líka með þennan klassíska kínverska mat sem við þekkjum og svo fór ég á það sem er kallað pot restaurant, en þá er tvenns konar súpu skellt fyrir framan þig og kveikt undir, síðan pantar maður alls konar kjöt og sjávarrétti og grænmeti sem maður eldar ofan í þessari súpu og bætir hinum ýmsu hráefnum við. Var mjög spes en ótrúlega skemmtilegt. Eins eru þeir vitlausir í japanskan mat, en hér í þessu landi er sagt að séu bestu japönsku veitingastaðir utan Japan, og ég get vel vottað um það, fékk geggjað sushi hérna. Þess má geta að Taívan var áður undir stjórn Japana.
Ég hefði viljað fara víðar um eyjuna en einhvern veginn hefur tíminn þotið áfram og brátt kominn tími til að halda á næsta áfangastað. Hingað á ég hins vegar klárlega eftir að koma aftur því hér hefur mér liðið alveg svakalega vel. Eins gott að Kína geri ekki eitthvað í þessum hótunum sínum og reyni að hertaka Taívan, en það hafa þeir ætlað sér í tæplega 50 ár eða svo. A ensku heitir Taívan The Republic of China sem kom mér á óvart. Þeir tala samt flestir Mandarín sem er aðal kínverska tungan en auk þess tala þeir kínversku sem nefnist Hakka. Auðvitað get ég ekki greint neinn mun, e ég heyri muninn á milli Mandarín og kóresku.
Næsti áfangastaður, Hanoi Víetnam, flýg þangað að morgni aðfangadags og eyði því sem eftir er af þessu ári í Víetnam 🙂

Takk fyrir að lesa og gleðilegt jól kæru vinir!
Comments