top of page

Thaíland, seinni hluti

  • gardarorn4
  • Jan 23, 2023
  • 5 min read

Mikið er ég búinn að eiga frábæra fjóra daga í Norður-Thailandi, nánar tiltekið í borg sem heitir Chiang Rai og er mjög norðarlega í landinu. Ég tók tvo daga í að keyra um nærumhverfið og uppgötva ótrúlegustu hluti, sjá hluti sem ég hef aldrei séð áður og notið magnaðrar náttúru. Hina dagana naut ég þess að rölta um borgina, skoða allt sem hún hafði upp á að bjóða, jafnt að degi sem að kvöldi, markaðir, veitingastaðir, almenningsgarðar og fleira og fleira. Ég held að ég byggi þetta blogg fyrst og fremst upp á myndum og segi frá hverjum stað í upphafi, enda missti ég mig aðeins á myndavélinni.

Byrjum bara á borginni sjálfri. Hún er kannski ekki sú fallegasta, frekar lítil og mannlífið bundið við ákveðin torg eða svæði. Inn á milli eru samt þvílíkar perlur, eins og til dæmis blómagarðurinn sem ég var búinn að setja inn myndir frá í fyrra bloggi. Fór þangað líka að kvöldi til og þá voru ljósin alsráðandi. Eins eru þeir með kirkjuturn sem breytir litum á kvöldin og götumyndin skemmtileg. Nokkur hof eru í borginni sem gaman er að skoða. Djammið þeirra er frekar dapurt, fátt fólk á öllum stöðum þrátt fyrir föstudagskvöld sem ég var á ferðinni úti, en hitti nokkuð hressa Svisslendinga og Þjóðverja á bar rétt hjá hótelinu mínu. Þeir voru nýbúnir að kaupa sér aðeins Kannabis, en það er löglegt hér, og lyktin eftir því. Ég fékk að sjá skammtinn sem þeir keyptu, bara svona eins og maður kaupir sér hamborgara.....

Fyrri ferðadaginn minn fór ég og heimsótti eitt þekktasta Búddasvæði þeirra hér sem nefnist The White Temple. Ég var búinn að sjá myndir, en ekkert bjó mig undir þessa fegurð sem þarna mætti mér, allar þessar hvítu byggingar og gylltar inn á milli, öll smáatriðin í þessu öllu saman, litlu fallegu fossarnir sem búið er að búa til. Eiginlega ólýsanlegt með orðum.

Áfram hélt ég að keyra og allt í einu birtist risa stór stytta af konu sem gnæfir yfir öllu. Ég snérist nánast úr hálsliðnum og fór að reyna að finna út úr því hvernig ég kæmist á þetta svæði og elti einhverja bíla inn í einhvern bæ og komst þar upp að þessu. Veit ekkert hvað þetta heitir en þetta var magnað, styttan risa stór og svo var kínverskur bænastaður (turn) þar við hliðiná. Það var hægt að taka lyftu upp í "höfuð" styttunnar og taka myndir sem var magnað.

Áfram hélt keyrslan og næsta stopp var í bæ sem er eins norðanlega í landinu og hægt er að komast og heitir Mae Sai. Þetta var lítill og sætur bær, en hann er samt þekktastur fyrir að vera landamærabær við Tachileik í Myanmar, eða gömlu Búrma. Ástandið í Búrma er mjög slæmt núna því miður, stjórnleysi algjört og innanríkisátök og því er öllum ráðið frá því að fara þangað. Því hafa Thailendingar lokað landamærum sínum. Það var samt magnað að standa þarna, ein á var á milli borgana og maður gat horft á Myanmar búana þarna hinum megin við og maður vissi að þeir eru að upplifa ömurlegan tíma, sorglegt. Þrjár neðstu myndirnar eru teknar frá Thailandi og yfir til Myanmar.

Jæja, áfram hélt ég keyrslunni og kom að mjög áhugaverðu safni sem nefnist The Opium Museum. Ópíóðaplantan hefur verið ræktuð hér á svæðinu í langan tíma, til að byrja með var um löglega starfsemi að ræða en á seinni árum var orðið mikið um ólöglegan útflutning og eins fór fólk að gera sér grein fyrir því hversu hættulegt og ávanabindandi þessi planta væri. Á árum áður var hún mjög mikið reykt en svo auðvitað eins og við vitum er hún notuð löglega í lækningaskyni, en misnotkun er mikil. Þetta safn var sett upp til að bæði heiðra sögu ópíum í landinu, en jafnframt að benda á skaðsemi þessara efna og forvarnir. Jafnframt var saga ópíum sögð, meðal annars stríðin á milli ýmissa landa. Safnið er verndað af tengdamóður Konungs Thaílendinga. Það hefur einnig verið mikið púður lagt í að finna því fólki sem stundaði útflutning ólöglega önnur verkefni, enda oft um að ræða fátæka ættbálka og hefur það verkefni gengið vel. Þetta var mjög skemmtilegt safn.

Þá var nú komið að hápunkti að mínu mati. EIns og margir vita þá er ég pínku landamæraperri, finnst ótrúlega gaman að fara að landamærum og sjá fleiri en eitt land í einu. Ég get sagt ykkur það að á Íslandi eigum við The Golden Circle, en hér eiga þeir The Golden Triangle, en það þýðir að þrjú lönd mætast við Mekong ánna, Thaíland, Myanmar og Laos. Maður stendur þarna og horfir yfir Mekong og sér öll löndin í einu, var alveg stórkostlegt. Það var boðið upp á siglingu á Mekong ánni þar sem farið var inn fyrir landhelgi allra landana, en auðvitað mátti ekki fara frá borði enda hefði þá orðið að sýna vegabréf og vesen. En þessi sigling var geggjuð og ég get sagt að ég eigi myndir af mér bæði í Myanmar og Laos :) Thaílandsmegin var líka ótrúlega fallegt og búið að búa til nokkurs konar trúarsamkomustað þar sem mörg asísk trúarbrögð koma saman á skúlptúr sem lítur út eins og skip.

Síðasta stoppið þennan ferðadag var síðan Bláa musterið, The Blue Temple. Ótrúlega flott, ekki kannski jafn tilkomumikið og þetta hvíta en engu að síður stórmagnað að sjá og upplifa. Það var aðeins farið að rökkra þegar ég var þar þannig að myndirnar eru aðeins dökkar en ættu samt að sýna þetta ágætlega.

Ferðadagur númer tvö var aðeins styttri, en ekki síður skemmtilegur. Ég hafði ákveðið að mig langaði að komast á fílabúgarð einhvers staðar og ég vildi komast á búgarð þar sem farið væri vel með fílana, en ég veit að víða er farið illa með þá. Því miður reyndist ekki verið farið vel með þá þar sem ég kom. Þetta eru svo magnaðar skepnur og glatað að sjá þær bundnar með keðjum við tréstaura, með sæti á bakinu til að fólk geti fengið að fara með þeim á fílsbaki. Það er kannski allt í lagi ef það væri farið vel með þá. Mér leið eiginlega bara ekki vel þarna og stoppaði ekki lengi. En þetta var falleg leið sem ég keyrði.

Næsta stopp var síðan á ótrúlega fallegum stað meðfram ánni sem rennur í gegnum Chiang Rai. Þar eru hellar sem þeir kalla Búddahellarnir og allt fullt af Búddastyttum innan í hellunum. Það eru víst fleiri hellar þarna en ég fór bara í þá stærstu sem var auðvelt að komast að. Tók svo nokkrar myndir yfir ánna, stórfenglegt útsýni alveg.

Að lokum ákvað ég að fara og heimsækja nokkur lítil þorp þar sem hinir ýmsu ættbálkar hafa komið saman og lifa sínu lífi undir verndarvæng heimamanna. Þetta var stórkostleg upplifun að koma þarna og sjá fólkið, aðalega konur og krakkar og svo hænur og hanar út um allt saman. Húsin hrörleg og skrýtin, mikið byggt úr bambus. Einkenni eins hópsins er svo kallaður Long Neck Karen, en þá eru konurnar með járn um hálsinn, meira að segja ungar stúlkur, alveg magað að sjá þetta.

Þetta er orðið allt of langt blogg hjá mér. En já, Norðurhluti Thaílands kom mér frábærlega skemmtilega á óvart, og samt sá ég bara brot af þessum hluta. Og í raun bara brot af landinu, sem er gríðarstórt og heimsótti ég til dæmis ekkert suðurhlutann, sem samanstendur af ströndum og mikilli fegurð. Það er ljóst að hingað þarf að koma aftur, vera lengur og skoða meira í þessu stórmerkilega landi.

Ég flaug í morgun frá Chiang Rai og til Bangkok og sit núna á flugvellinum þar, skrifa blogg og býð eftir næsta flugi, næsti áfangastaður, Kuala Lumpur í Malasíu, verður spennandi og skemmtilegt. Enda þetta með nokkrum myndum þegar ég var að koma inn til lendingar á Don Mueang flugvellinum hér í Bangkok. Bestu kveðjur til allra og takk fyrir að lesa bloggið.




Comments


bottom of page